Jón Steindór Þorsteinsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri wallet-innleiðinga hjá Leikbreyti. Hann starfaði áður hjá AJ vörulistanum sem vefstjóri og þar áður sem verkefnastjóri veflausna hjá Davíð og Golíat.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Jón til starfa en hann hefur sterkan tæknibakgrunn og skilning sem mun reynast mikilvægt í störfum hans sem verkefnastjóri. Reynsla Jóns á sviði þjálfunar og kennslu mun ekki síður reynast okkur mikilvæg á þeirri spennandi og hröðu vegferð sem við erum á,“ segir Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri.

Jón er einnig kennaramenntaður frá Íþróttakennaraháskólanum á Laugarvatni og hefur sótt sér UEFA A-þjálfaragráðu frá KSÍ. Hann hefur þá um árabil starfað sem knattspyrnuþjálfari hjá Fylki.

Lausnin sem Leikbreytir vinnur með leyfir verslunarfyrirtækjum að halda betur utan um gjafakort. Lausnin gerir verslunum kleift að gefa út gjafakort og vildarkort á hefðbundinn hátt í prenti sem og Apple og Google Wallet. Með kortunum er síðan hægt að greiða fyrir vörur í verslun þar sem kerfið er samþáttað LS Retail og DK pos ásamt flestum helstu vefverslunar- og afgreiðslukerfum.