Stjórn Garðheima hefur ráðið Jónu Björk Gísladóttur sem nýjan framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hún tekur við starfinu af Kristínu Helgu Gísladóttur, sem hefur ákveðið að láta af störfum eftir áratug í starfi.

Jóna Björk er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig stundað nám í markaðsfræðum við The University of Maryland. Hún býr að fjölbreyttri reynslu sem mun nýtast vel í leiðtogahlutverkinu, m.a. sem markaðsstjóri félagsins.

„Ég er afar spennt að taka við þessu starfi og hlakka til að vinna áfram að uppbyggingu og vexti fyrirtækisins okkar á nýjum stað. Ég vil líka nota tækifærið og þakka Kristínu fyrir einstakt starf undanfarin ár, þá sérstaklega við byggingu nýju verslunarinnar okkar,“ segir Jóna Björk.

Í tilkynningu segir að Kristín láti sátt af störfum með þann árangur sem náðst hefur á hennar vakt og óski Jónu velfarnaðar í starfinu.