Karen Ósk Gylfadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Lyfju og hóf hún störf í dag, samkvæmt Festi.
Karen tekur um leið sæti í framkvæmdastjórn Festi en hún hefur síðustu þrjú ár gegnt starfi framkvæmdastjóra vöru- og markaðssviðs og stafrænnar þróunar fyrirtækisins.
Karen Ósk tekur við af Hildi Þórisdóttur, sem hefur verið starfandi framkvæmdastjóri samhliða fyrra starfi sínu sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs frá því sumarið 2023 eftir að Sigríður Margrét Oddsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri, lét af störfum.
Hildur Þórisdóttir tekur við starfi mannauðsstjóra Festi.
„Við þökkum Hildi fyrir að leiða félagið af festu á óvissutímum og hlökkum til að fá hana til liðs við Festi og vinna með henni í að efla enn frekar mannauð og menningu innan samstæðu Festi,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi og stjórnarformaður Lyfju.
Í fréttatilkynningu segir að Karen Ósk sé viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og tók stjórnendanám við Kellogg Northwestern háskólann vorið 2024.
Hún starfaði áður í alls sjö ár hjá Nova, síðast sem markaðsstjóri en gegndi einnig stöðu sölu- og þjónustustjóra og viðburðastjóra.
Karen var markaðssérfræðingur í markaðsdeild Íslandsbanka á árunum 2015-2017 ásamt því að koma að þjónustumálum og stefnumótunarverkefnum bankans.
„Karen Ósk hefur starfað þvert á starfssvið Lyfju undanfarin ár og þekkir vel til starfseminnar. Hún hefur verið lykilaðili í þeirri umbreytingu sem Lyfja hefur farið í gegnum á undanförnum árum ásamt framkvæmdarstjórn félagsins. Stjórn Lyfju felur henni að leiða áframhaldandi sókn á stækkandi markaði í samstarfi við öflugt starfsfólk Lyfju og Festi. Við bjóðum Karen velkomna og hlökkum til samstarfsins,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festi.
„Ég er þakklát því trausti sem mér er sýnt að fá að leiða einstaka liðsheild Lyfju í átt að áframhaldandi árangri. Ég hef fengið tækifæri til að taka þátt í vegferð félagsins undanfarin ár og leiða þar umbreytingarverkefni í takt við okkar stefnu. Ég þekki því af reynslu hversu mikil fagmennska, þekking, kraftur og metnaður býr innan Lyfjuliðsins. Fram undan eru virkilega spennandi tímar innan samstæðu Festi þar sem Lyfja mun fá enn meiri stuðning til að vaxa, efla þjónustu við viðskiptavini um allt land og breyta leiknum með það að markmiði að efla heilsu og auka lífsgæði landsmanna,“ segir Karen Ósk Gylfadóttir.