Kári Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Auglýsingamiðlunar hjá Símanum en Kári hefur starfað hjá Símanum síðan 2015 sem sérfræðingur í greiningum og þróun auglýsingalausna Símans.
Hann kom til Símans frá SkjáEinum þar sem hann var birtingar- og rannsóknarstjóri en áður starfaði Kári meðal annars hjá Hvíta húsinu sem birtingarstjóri.
Auglýsingalausnir Símans bera ábyrgð á sölu og ráðgjöf auglýsinga í Sjónvarpi Símans og umhverfismiðlum, t.d. í strætóskýlum og LED-skjáum víða um land, ásamt sérhæfðri ráðgjöf í birtingum.
„Ég er spenntur að leiða þennan frábæra hóp sem er leiðandi í nýtingu gagna og nýrra tæknilausna í birtingum auglýsinga. Það eru mikil tækifæri fólgin í því að sameina krafta sjónvarps og umhverfismiðla og með hjálp t.d. gervigreindar ásamt sérfræðiþekkingu okkar getum við hjálpað auglýsendum að ná mælanlegum árangri,“ segir Kári.
Kári er með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands, er bassaleikari hljómsveitarinnar 200.000 naglbíta og eini starfsmaður Símans sem hefur spilað leik í meistaradeild Evrópu í handbolta. Hann er einnig margfaldur Íslandsmeistari yngri flokka með KA ásamt því að hafa spilað í efstu deild með bæði KA og Víkingi.