Tveir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir á fjármála- og tæknisviði Terra umhverfisþjónustu. Karl F. Thorarensen hefur hafið störf sem innkaupastjóri og Haraldur Eyvinds Þrastarson sem forstöðumaður upplýsingatækni og stafrænnar vegferðar hjá fyrirtækinu.

Karl F. Thorarensen mun leiða mótun nýrrar innkaupastefnu og byggja upp innkaupa- og vörustýringarferli, þvert á rekstur skipulagsheildar félagsins. Karl kemur frá Icelandair þar sem hann starfaði sem innkaupastjóri. Fyrir það var hann innkaupastjóri hjá Emmessís og Odda.

Karl bjó í Rússlandi frá 2001 til 2003 og stundaði nám í Ríkisháskólanum í Pétursborg. Eftir að hann flutti heim fór hann í markaðs- og útflutningsfræði og síðar viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Síðustu misseri hefur hann verið í mastersnámi í stjórnun og stefnumótun við HÍ með vinnu.

„Ég hef brennandi áhuga á öllu sem viðkemur innkaupum enda hef ég starfað í þeim geira í yfir tuttugu ár. Það er ótrúlega spennandi að ganga til liðs við Terra umhverfisþjónustu og fá tækifæri til að leggja mitt á vogarskálarnar í þeim mikilvægu verkefnum sem félagið stendur frammi fyrir, bjóða upp á sjálfbæra umhverfisþjónustu um allt land og koma hringrásarhugsuninni í alla okkar virðiskeðju. Minn fókus verður á að vinna náið með birgjum sem deila þeirri sýn með okkur. Ég er gríðarlega spenntur," segir Karl.

Haraldur Eyvinds Þrastarson hefur hafið störf sem forstöðumaður upplýsingatækni og stafrænnar vegferðar hjá Terra Umhverfisþjónustu. Haraldur kemur frá Advania þar sem hann starfaði sem stjórnandi á sviði viðskiptalausna síðustu 5 ár. Hjá Advania stýrði hann m.a. teymi í skýjalausnum og stafrænni vegferð viðskiptakerfa.

Þar áður var Haraldur stjórnandi á fjármálasviði Símans til fjölda ára. Haraldur er með B.Sc. í viðskiptafræði, með áherslu á vörustjórnun og aðfangakeðjur.

„Það er ótrúlega gaman að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er í gangi hjá Terra. Þetta er gríðarlega mikilvægur iðnaður í nútíma samfelagi og á eftir að verða enn mikilvægari en hann er í dag. Ég hlakka mikið til þess að takast á við þau verkefni sem snúa að upplýsingatækni og stafrænivæðingu Terra. Þessi iðnaður byggir sífellt í meira mæli á upplýsingagjöf og sjálfvirknivæðingu og framundan er mjög spennandi vegferð sem ég hlakka mikið til að taka þátt í með öllu því frábæra fólki sem starfar hjá Terra," segir Haraldur.