Kristinn Óli Haraldsson, nýr texta- og hugmyndasmiður hjá auglýsingastofunni Pipar\TBWA, segir margt og mikið felast í nýja starfinu. „Dagarnir eru mismunandi eins og þeir eru margir. Allt frá því að prófarkalesa bréfsefni yfir í að skiptast á hugmyndum við samstarfsfólk. Við gerum allt frá A til Ö sem tengist auglýsingum og okkar viðskiptavinum," segir Kristinn Óli. Hann segist komast að nýjum hlutum á hverjum einasta degi í nýja starfinu sem sé mjög fjölbreytt.
Kristinn Óli segir þetta vera fyrsta alvöru starfið sitt frá því að hann starfaði á Lemon 16 ára gamall. „Síðan þá hef ég verið á leikarasamningi hjá Leikfélagi Akureyrar, sýnt sýningu í Gamla Bíói með frábærum hópi fólks, leikstýrt mínu fyrsta leikverki í Hafnarfirði. Ég hef líka spilað mikið á tónleikum og verið að þjálfa MORFÍS," segir Kristinn Óli en hann er annar helmingur tvíeykisins JóiP og Króli sem varð landsþekkt fyrir nokkrum árum.
Á Pipar\TBWA starfa um 50 manns. Á meðal þjónustu sem boðið er upp á er markaðsráð gjöf, almannatengsl, stafræn markaðssetning, mörkun og hönnun. Stofan er hluti af TBWA-auglýsingakeðjunni sem telur yfir 300 auglýsingastofur um allan heim. „Ég sit með miklum reynsluboltum sem miðla reynslu sinni og þekkingu vel og vandlega. Það er mikill heiður að fá tækifæri til að vinna með þessu fólki."
Næsta haust hefur Kristinn Óli nám við leikarabraut Listaháskóla Íslands. „Allt sem er skapandi og krefjandi hefur heillað mig lengi. Ég er á leiðinni í skóla í haust en vonast eftir því að taka þátt í einhverjum verkefnum hérna á stofunni samferða náminu." Kristinn er í sambúð með Ragnhildi Birtu Ásmundsdóttur sem er að útskrifast af samtímadansbraut Listaháskólans í vor, en þau hafa verið í sambandi í þrjú ár. „Ég veit að hún hefur áhuga á því að vinna við allt sem tengist dansi og listsköpun."
Stærsta áhugamál Kristins Óla eru áskoranir af öllum stærðum og gerðum, en nýi vinnustaðurinn veitir honum útrás fyrir það. „Ég er enn að reyna að koma mér í grúvið í nýja starfinu eftir að hafa verið kastað í djúpu laugina - það er ekkert gaman nema verkefnið sé krefjandi."
Kristinn er fullur tilhlökkunar fyrir komandi tímum en segir fátt annað munu komast að en nýja starfið og námið næsta haust. „Það er gaman á meðan þetta er og ég ætla að njóta þess til hins ýtrasta."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .