Katrín Júlíusdóttir hefur gengið til liðs við ráðgjafarfyrirtækið Athygli en samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu mun hún sinna ráðgjöf tengdri stjórnsýslu, stefnumótun, samskipta- og kynningarmálum.
Katrín hefur undanfarið unnið að sérverkefnum í ráðgjöf sem og ritstörfum en hún hefur þegar hafið störf hjá Athygli.
Hún var iðnaðar-, fjármála- og efnahagsráðherra árin 2009-2013 og sat Alþingi fyrir Samfylkinguna frá 2003 til 2016. Katrín var framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu frá 2016 til 2022.
Hún útskrifaðist með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík 2014.
„Við erum mjög spennt fyrir því að fá Katrínu til liðs við okkur hjá Athygli.
Áratuga reynsla hennar af íslensku stjórnkerfi og atvinnulífi mun vera frábær viðbót við ráðgjafarteymi okkar. Ég hef sjálfur reynslu af því að vinna með henni og hef séð það í nálægð hversu gríðarlega öflug hún er,“ segir Kolbeinn Marteinsson framkvæmdastjóri Athygli.