„Mikið af spennandi tækifærum sem blasa við hjá þessu nýja fyrirtæki,“ segir Áslaug S. Hafsteinsdóttir nýr forstöðumaður innleiðingasviðs Controlant. „Mér hefur verið falið að byggja upp nýja einingu sem hefur ekki verið formlega til staðar áður. Þar sem formlega er haldið utan um innleiðingu vöru og þjónustunnar hjá stórum viðskiptavinum.“
Fyrirtækið þróar hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum í flutningi svo hægt væri að vakta ástand og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum. Controlant sem fagnar 15 ára afmæli sínu í ár, hefur vaxið hratt á síðustu árum, starfsmönnum fjölgað úr 50 í 350 á tveimur árum og tekjurnar tuttugufaldast milli áranna 2019 og 2021. Samningur fyrirtækisins við lyfjaframleiðandann Pfizer, um eftirlit með dreifingu bóluefna við Covid-19 hefur skipt þar mestu.
„Þetta er í dag 25 manna teymi sem mun stækka þegar það koma inn nýir viðskiptavinir. Við sjáum fram á að þetta teymi muni stækka talsvert á næstu sex til tólf mánuðunum, og í náinni framtíð munu allt að 35 manns starfa í teyminu. Stærðin stýrist svo lítið af verkefnum og umfanginu hverju sinni.“
Áslaug starfaði áður sem forstöðumaður fjártækniþjónustu Meniga. Hún segir að reynslan þaðan muni nýtast gríðarlega vel í nýju starfi. „Það sem ég var að gera hjá Meniga var mjög svipað, þar byggði ég upp og stýrði teymi sem sá um að innleiða fjártæknihugbúnað hjá stórum alþjóðlegum bönkum“.
„Þetta er á margan hátt mjög hliðstætt þó að geirinn sé annar. Vinnan felst í samtölum við stór alþjóðleg fyrirtæki, skilja hvernig þau vinna og hvernig teymin eru sett saman. Til þess að nýta lausnirnar þarf að skilja viðskiptaþarfirnar, tæknilegu þarfirnar og svo innkaupaferlin.“
Áslaug er gift Sindra Bæring Halldórssyni, húsasmíðameistara og saman eiga þau fjögur börn. Á döfinni er ferð til Búdapest þar sem Áslaug fer á tvenna rokktónleika.
„Sumarið leggst vel í mig, ég er að fara til Búdapest í sumar með goðsagnakenndu rokkhljómsveitunum Pearl Jam og Kiss. Þetta vildi bara svona skemmtilega til að þessir tónleikar væru á sama stað. Tækifærin voru gripin og það verður gaman að skoða borgina í leiðinni“.
Til viðbótar við tónleikaferðalög ætlar Áslaug að nýta sumarið í utanvegahlaup og hefur augun opin fyrir ýmsum tækifærum á þeim vettvangi. Í fyrrasumar hljóp hún sitt fyrsta ultramaraþon þegar að hún hljóp Laugaveginn. Á veturna stundar hún svo bæði göngu- og fjallaskíði af kappi.
Viðtalið við Áslaugu birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.