Klara Sveinsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri líftæknifyrirtækisins Arterna Biosciences. Hún kemur til Arterna Biosciences frá Kerecis þar hefur hún starfað frá árinu 2018 og haldið utan um nokkrar lykildeildir hjá félaginu.
Hjá Kerecis hefur Klara meðal annars gegnt framkvæmdastjórastöðum, verið ábyrg fyrir sölu og viðskiptaþróun í Evrópu og Asíu, gæða- og skráningarmálum og framleiðslu og vöruþróun félagsins.
Þá hefur Klara einnig starfað hjá Icepharma og Actavis og býr að áralangri reynslu í lyfjageiranum. Hún er lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
„Klara býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á markaðssetningu líftækniafurða og þeim þróunarferlum sem ung líftæknifyrirtæki vinna eftir. Við hjá Arterna erum mjög spennt að fá Klöru í þetta hlutverk og hlökkum til að vinna með henni að framtíðarverkefnum félagsins“ segir Margrét Helga Ögmundsdóttir, einn stofnenda Arterna Biosciences.
Arterna Biosciences var stofnað árið 2021 og hefur þróað nýjar lausnir til þess að bæta gæði RNA í framleiðslu en gæði RNA eru lykilatriði þegar kemur að virkni RNA lyfja og rannsókna sem byggja á líffræði RNA.
„Ég er gríðarlega spennt fyrir þeim nýjungum sem Arterna hefur þróað og tel afar mikilvægt að koma þeim á markað sem fyrst. Vörurnar eru einkum miðaðar að RNA lyfjaframleiðslu en ná einnig til líftæknifyrirtækja og rannsóknastofnana,“ segir Klara.