Klara Símonardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) en hún hefur starfað í verslunargeiranum í áraraðir ásamt því að hafa bakgrunn úr markaðsrannsóknum.

Rannsóknarsetur verslunarinnar var stofnað árið 2004. Að því standa Menningar- og viðskiptaráðuneytið, VR, Samtök verslunar og þjónustu og Háskólinn á Bifröst.

Klara kemur til Rannsóknarsetursins frá heildversluninni Petmark, þar sem hún hef starfað síðustu ár sem framkvæmdastjóri og unnið þar að hraðri uppbyggingu fyrirtækisins ásamt því að stýra sölu- og markaðsmálum.

Hún starfaði áður hjá Hundaræktarfélagi Íslands, Capacent Gallup og Fjölva útgáfu en stundar MBA nám við Háskólann í Reykjavík og hefur lokið BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Klara mun leiða starfsemi Rannsóknarsetursins og koma að frekari vöruþróun og uppbyggingu starfseminnar.

„Það er fengur fyrir Rannsóknarsetrið að fá Klöru inn í hlutverk forstöðumanns en hún hefur stjórnunarreynslu úr íslenskri verslun og þekkingu á þörfum verslunarinnar á gögnum og hagnýtingu þeirra. Einnig hefur hún bakgrunn úr markaðsrannsóknum og útgáfu sem kemur til með að nýtast afar vel við þróun starfseminnar”, segir María Jóna Magnúsdóttir formaður stjórnar RSV.