Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, hefur stofnað ráðgjafafyrirtækið Kontext ehf.
Konráð hefur víðtæka reynslu úr íslenskri stjórnsýslu og atvinnulífi. Hann hefur meðal annars starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hagfræðingur hjá Arion banka, aðstoðarmaður fjármálaráðherra og efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar.
Konráð segir Kontext ehf. bjóða upp á greiningar, umsagnir og ráðgjöf fyrir fjölbreytta hagsmunaaðila og fyrirtæki. Þá verði einnig hægt að leita til hans með sérverkefni tengd stefnumótun og kynningarefni.
Nafnið Kontext vísar til þess að leitast verður við að setja flókna hluti í gagnlegt og skýrt samhengi. Áhersla verði lögð á gagnadrifinn rökstuðning og hnitmiðaða framsetningu. „Þeir sem mig þekkja vita hversu mikla ástríðu ég hef þegar kemur að slíku.“
Undanfarna mánuði hefur Konráð birt fjölda pistla á Ráðdeildinni, heimasíðu sinni á Substack, og hyggst halda því áfram eftir sem tími gefst.