Kristín Björk Jónsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Snjallgögnum sem rekstrarstjóri. Snjallgögn er tíu manna hugbúnaðarhús í Reykjavík sem þróar gervigreindarlausnir fyrir atvinnulífið.
Hún er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum frá Illinois Institute of Technology í Chicago.
Kristín Björk hefur þá víðtæka reynslu úr atvinnulífinu en hún kemur til Snjallgagna frá húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) þar sem hún var framkvæmdastjóri upplýsingatækni.
Hún starfaði áður meðal annars hjá Landsbankanum við gagnadrifna upplýsingagjöf og Alvogen þar sem hún stýrði þróun og innleiðingu á stefnumótandi upplýsingagjöf og árangurstengdum mælikvörðum.
Þar að auki var hún þátttakandi í viðskiptahröðlunum Snjallræði 2023 og Startup Tourism 2024. Kristín Björk er einnig stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hjá Velferðarsjóði barna.
„Það er mikil eftirvænting hjá okkur að vinna með Kristínu. Það er mikilvægt fyrir ungt fyrirtæki eins og okkar að geta treyst á innsýn og þekkingu fólks sem er hokið af reynslu úr atvinnulífinu. Hið öfluga tengslanet Kristínar er okkur einnig dýrmæt viðbót,” segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna.