Kristín Hrefna Halldórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Flow. Fyrirtækið framleiðir hugleiðsluhugbúnað fyrir sýndarveruleikagleraugu en von er á hugleiðsluhugbúnaði fyrir snjallsíma frá þeim í september.

Kristín Hrefna er með MBA frá Háskóla Íslands og var í viðskiptaþróunarteymi Meniga í 5 ár en síðast var hún sérfræðingur í gagnagreiningu hjá Valitor. Á árunum 2007-2010 var Kristín Hrefna framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Við erum mjög ánægð að fá Kristínu Hrefnu til liðs við Flow og reynsla hennar úr viðskiptaþróun er mjög verðmæt fyrir fyritækið á þessu stigi,“ segir Tristan Gribbin, framkvæmdastjóri og annar af stofnendum Flow

Flow var stofnað árið 2016 en félagið vann Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups árið 2018. Fyrirtækið lauk nýverið við 118 þúsund evra fjármögnun í gegnum fjárfestingarvettvanginn Funderbeam og hefur jafnframt fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði upp á samtals 60 milljónir króna.

„Það er frábært að sjá hvað fyrirtæki eru jákvæð og opin fyrir því að færa hugleiðslu inná íslenska vinnustaði enda er það ótrúlega öflugt tæki til þess að fólki líði vel í vinnunni. Rannsóknir sýna líka að veikindadögum fækkar um 43% hjá starfsfólki sem byrjar að hugleiða og stundar hugleiðslu reglulega,“ segir Kristín Hrefna sem er spennt fyrir nýju starfi.

„Íslensk fyrirtæki vilja hugsa vel um starfsfólkið sitt og vita hvað það felast mikil verðmæti í því að hugsa vel um heilsu og líðan starfsmanna. Íslenski markaðurinn er því tilvalinn til þess að þróa viðskiptaáætlanir okkar og hugbúnaðinn.“

Mörg íslensk fyrirtæki hafa nú þegar sett upp hugleiðsluherbergi eða aðstöðu fyrir starfsfólk sitt en lausn fyrirtækisins, Flow for work, býður upp á sýndarveruleikabúnað og hugbúnað til þess að hugleiða í vinnunni ásamt því að fá nærandi og streitulosandi vinnustofur fyrir starfsfólk.

„Við sjáum líka aukinn áhuga fyrir því að stjórnendur vilji hugleiðsluvinnustofur fyrir ákveðin teymi sem annaðhvort eru undir miklu álagi eða þurfa að vinna mjög skapandi vinnu. Hugleiðsla er ótrúlega öflug til þess að fá teymi til að vinna betur saman og opna hugann í listrænni og skapandi vinnu.”