Kristín Unnur Mathiesen og  Einar Snær Ásbjörnsson hafa gengið til liðs við Fossa markaði. Bæði koma til liðs við markaðsviðskipti Fossa sem miðlarar, en Kristín Unnur mun þar bera ábyrgð á samskiptum við alþjóðlega viðskiptavini (e. Head of Global Sales). Greint er frá ráðningu þeirra í fréttatilkynningu.

Kristín Unnur kemur til Fossa eftir fimm ár hjá JP Morgan í Lundúnum og Einar Snær frá viðskiptavakt Landsbankans þar sem hann hefur starfað frá því hann lauk námi 2020.

Einar er með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Samhliða námi kenndi hann dæmatíma í verðmati fyrirtækja.

Kristín Unnur er með margra ára starfsreynslu af alþjóðafjármálamörkuðum. Áður en hún gekk til liðs við Fossa starfaði Kristín Unnur frá 2017 til 2022 sem fulltrúi við Emerging Markets Hedge Fund Sales hjá JP Morgan í Lundúnum. Hún er með B.Sc. gráðu í Business Management frá King's College London og hefur viðurkennd starfsréttindi frá FCA í Bretlandi.

Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa:

„Við hjá Fossum fögnum þessum öfluga liðsauka og bjóðum þau Kristínu Unni og Einar Snæ velkomin til starfa. Ráðningin styður markmið og stefnu Fossa sem frá stofnun hefur verið leiðandi við að efla erlenda þátttöku í markaðsviðskiptum hér á landi. Á verðbréfamarkaði hafa Fossar verið með bróðurpart af fjárfestingu erlendra aðila og við sjáum mikil tækifæri á stækkandi markaði til að efla það starf enn frekar."

Kristín Unnur Mathiesen:

„Ég er mjög spennt að fá tækifæri til að starfa með öflugum hópi hjá Fossum mörkuðum, taka þátt í að efla samskipti við erlenda fjárfesta og stuðla að markaðssetningu tækifæra á íslenska markaðnum. Reynsla mín úr markaðsviðskiptum í alþjóðlegu fjárfestingabankaumhverfi í bland við Íslendinginn sem maður er og verður alltaf er ávísun á skemmtilegt verkefni framundan."