Eyrir Venture Management hefur ráðið Kristinn Pálmason sem framkvæmdastjóra. Kristinn mun leiða félagið sem fer með rekstur og stýringu á fjárfestingasjóðunum Eyrir Vöxtur og Eyrir Sprotar og eignarhaldsfélaginu Eyrir Ventures til viðbótar við umsýslu á hlutum í hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling International.

EVM hefur komið að fjárfestingum í fjölda fyrirtækja og má sem dæmi nefna félögin Sæbýli, Activity Stream, Atmonia, Pay Analytics og Laki Power. Kristinn tekur við starfinu af Erni Valdimarssyni.

Kristinn hefur víðtæka reynslu af fjárfestingum og fjármálum en hann kemur til EVM frá fjárfestingafélaginu Silfurberg ehf. þar sem hann gegndi starfi fjármálastjóra. Silfurberg sérhæfir sig í fjárfestingum á sviði lífvísinda- og tæknigreina. Hann starfaði einnig í níu ár sem fjárfestingastjóri hjá Framtakssjóði Íslands og sá um endurskipulagningu og síðar sölu á félögum úr eignasafni sjóðsins. Þar áður var hann sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Landsbankanum.

„Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu af fjárfestingum og mikla reynslu af því að auka virði fyrirtækja“

„Ég er afar spenntur að vinna áfram með þeim fyrirtækjum sem nú þegar hefur verið fjárfest í og að fjölga í þeim hópi sem og að nýta reynslu mína og þekkingu úr fyrri störfum til að styðja þau enn frekar,“ segir Kristinn.

Ásamt því að hafa séð um endurskipulagningu og kaup og sölu á fjölda fyrirtækja hefur hann setið í mörgum stjórnum bæði innlendra og erlendra félaga. Má þar nefna félög á borð við Invent Farma, Advania, Icelandic Group, N1 og Húsasmiðjuna og tekið þátt í að leiða skráningu fyrirtækja á markað. Kristinn er með Bsc í viðskiptafræði og Msc í fjármálum frá Háskóla Reykjavíkur.

„Það er mikill styrkur fyrir Eyrir Venture Managment að fá Kristinn til liðs við félagið. Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu af fjárfestingum og mikla reynslu af því að auka virði fyrirtækja. Við Kristinn störfuðum saman í nær áratug á öðrum vettvangi þar sem ég fylgdist með honum nýta sína þekkingu og styrkleika af einstakri yfirvegun og ná framúrskarandi árangri,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður Eyrir Venture Management.