Kristján Karl tók við stöðu framkvæmdastjóra Samey Robotics 1. júní síðastliðinn af Jóhanni Jónassyni. Hann er fæddur og uppalinn í Bolungarvík en flutti á unglingsárunum til Danmerkur þar sem hann lagði stund á nám í útflutnings og markaðsfræði í Óðinsvéum.
Þá starfaði Kristján um árabil bæði í Danmörku og Þýskalandi og eftir heimkomuna 2010 hefur hann starfað við ráðgjöf, sölu og markaðsmál tengd sjávarútvegi.
Valdimar Gunnar Sigurðsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður sölu-, markaðsmála og verkefnastjórnunar hjá Samey Robotics og hóf störf 1. september síðastliðinn.
Hann leggur nú stund á MM-gráðu í stjórnun frá Háskólanum á Akureyri og er með BS-gráðu í sjávarútvegsfræðum frá sama skóla. Þá hefur Valdimar Gunnar einnig lokið iðnmeistaranámi frá Tækniskólanum í Reykjavík.
Valdimar Gunnar kemur frá Bacco Seaproducts þar sem hann starfaði við útflutning á ferskum og frosnum fiskafurðum. Þar áður starfaði hann sem alþjóðlegur sölustjóri fiskiðnaðar hjá Marel. Þá hefur hann unnið við sölu og markaðsstörf í yfir 20 ár og þar áður sem sjómaður.
Bjarni Eiríksson var ráðinn sem verkefnastjóri hjá Samey Robotics 1. mars á þessu ári. Hann hefur lokið MS-gráðu í Auðlindafræðum og BS-gráðu í Sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri.
Bjarni starfaði áður hjá Controlant sem Logistics Engineer í ýmsum sérverkefnum sem studdu við innleiðingu nýrra verkferla byggða á bestun. Þar áður starfaði hann hjá Marel sem Market Intellicence Officer við ýmsa greiningarvinnu. Þá hefur hann starfað sem verkefnastjóri hjá Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri og einnig við Sjávarútvegsháskóla SÞ.
Halldór Pétur Ásbjörnsson var þá ráðinn sem verkefnastjóri hjá Samey Robotics og hóf störf 5. apríl á þessu ári. Hann lauk MS-gráðu í auðlindafræðum árið 2011, BS-gráðu í sjávarútvegsfræðum árið 2009 frá Háskólanum á Akureyri og fiskeldisfræði frá Háskólanum á Hólum 2006.
Þá starfaði Halldór Pétur áður sem rekstrarstjóri hjá Samherja fiskeldi í Sandgerði og þar áður sem verk- og verkefnastjóri í fiskiðjuveri Brims í Reykjavík í tíu ár. Halldór hefur víðtæka reynslu bæði til sjós og lands en hann fór á sjó flest sumur á námsárum sínum.
Jón Hlífar Aðalsteinsson hefur verið ráðinn til Samey Robotics í stöðu viðskiptastjóra. Hann er með BS-gráðu í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri.
Hann starfaði áður sem verkefnastjóri hjá Pescatech í fjölbreyttum verkefnum. Þar áður var hann sölu- og rekstrarstjóri hjá Lavango á Íslandi. Hann hefur víðtæka reynslu af vinnslutækni og hefur sinnt ýmsum störfum til sjós og lands.