Kristján Aðalsteinsson hefur verið ráðinn sölustjóri hjá Billboard/Buzz og hefur hann störf 1.september næstkomandi. Kristján mun koma við hlið Jóns Ásgeirs Gestssonar sem hefur verið sölustjóri undanfarin þrjú ár í breyttu skipulagi þar sem nú eru tvær söludeildir innan miðla Billboard/Buzz. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Kristján var hluthafi og viðskiptastjóri hjá Hvíta húsinu, auglýsingastofu. Þar hafði Kristján starfað undanfarin þrjú ár. Hjá Hvíta húsinu starfaði Kristján við ráðgjöf, stefnumótun og allt sem snýr að því að hjálpa fyrirtækjum að auka vitund um vörumerki sín og þjónustu. Sú reynsla mun nýtast Kristjáni einstaklega vel í nýja starfinu. Samhliða starfi sínu hjá Hvíta húsinu kenndi Kristján námskeiðið „Góðir söluhættir, lykilþættir þjónustu og stýring væntinga" við Opna Háskólann í Reykjavík.
Kristján er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hann er í sambúð með Guðrúnu Magnúsdóttur, sjúkraþjálfara sem starfar sem viðskiptastjóri hjá Stoð. Þau eiga saman tvo syni en Kristján á einn son úr fyrra sambandi.
„Billboard/Buzz eru ótrúlega spennandi auglýsingamiðlar. Sýnileiki okkar miðla, hvort sem um ræðir í tugum stórra LED skjáa, hundruðum LED skjáa í biðskýlum strætisvagna eða flettiskilti og plaköt setur okkur í einstaka stöðu til að ná athygli rúmlega 90% Höfuðborgarbúa á degi hverjum. Þetta er einstök staða sem verður gaman að halda áfram að byggja upp á næstu árum. Markmið okkar eru að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu, með árangur þeirra að leiðarljósi í einu og öllu. Íslenskur auglýsingamarkaður er stöðugt að taka breytingum og útimiðlar eru þar engin undantekning. Sem dæmi má nefna að Boozt.com valdi Billboard/Buzz sem burðarmiðla í sinni markaðsherferð á Íslandi með árángri sem engan óraði fyrir að væri hægt að ná. En það sem einkennir skandinavísk fyrirtæki umfram þau íslensku er að þau kunna svo sannarlega að nota umhverfismiðla í sínu markaðsstarfi en þau íslensku eru enn að læra hversu öflugur þessi miðill er. Nú er hægt með einföldum hætti að nálgast ákveðna markhópa, innan tiltekinna hverfa, á þeim tíma dags sem hentar okkar viðskiptavinum. Við getum því klæðskerasniðið auglýsingar okkar viðskiptavina í samræmi við þeirra væntingar og markmið. Útimiðlar eru mjög þekktur auglýsingamiðill á meðal fyrirtækja erlendis og við erum stolt af því að geta boðið upp á þennan valkost hér á Íslandi. Það er því mikið að gerast og ég hlakka til að hjálpa fyrirtækinu að vaxa og dafna á næstu árum," er haft eftir Kristjáni.