Fjórir nýir starfsmenn hafa bæst í hópinn á auglýsingastofunni Pipar\TBWA að undanförnu. Það eru þau Ásgeir Tómasson sem er hreyfigrafíker, Alma Guðmundsdóttir nýr fjármálastjóri, Kristinn Óli Haraldsson gengur til liðs við texta- og hugmyndadeild og Johanne Turk hefur með höndum leitarvélabestun. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Ásgeir Tómasson lauk námi í stafrænni hönnun frá Tækniskóla Íslands fyrir einu ári og kom til starfa síðasta sumar. Hann leggur gjörva hönd á alla hönnun þar sem hreyfingar er þörf.
Alma Guðmundsdóttir er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Hún hefur starfað við bókhald, skrifstofuhald og fjármálastjórn í gegnum tíðina, lengst af hjá Íslenskum markaðsrannsóknum, Gallup, síðar Capacent. Í kjölfarið gerðist hún fjármálastjóri Já hf., um tveggja ára skeið eða þar til hún gerðist fjármálastjóri hjá Hjallastefnunni árið 2017 þaðan sem hún kom til starfa í Pipar\TBWA.
Kristinn Óli Haraldsson hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður, leikari og jafnvel leikstjóri. Dúóið JóiP og Króli varð landsþekkt fyrir fáum árum og nýtur mikilla vinsælda og samstarf þeirra félaga stendur enn. Frá unga aldri hefur Kristinn Óli tekið þátt í og farið með hlutverk bæði á sviði sem og í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, sem leikari ætlar að starfa, söngvari og dansari.
Johanne Turk lauk háskólamenntun í háskólanum í Lille í Norður-Frakklandi, mastersgráðu í vef- og margmiðlun. Í náminu kviknaði brennandi áhugi á leitarvélabestun en hún er einnig með góðan grunn í forritun. Að námi loknu starfaði hún á vefstofu í Norður-Frakklandi í sínu fagi, leitarvélabestun, en réði sig síðan til einnar stærstu vefstofu Frakklands þar sem hún öðlaðist enn frekari starfsreynslu í þeirra grein.