Lárus M. K. Ólafsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Lárus tekur til starfa á næstu dögum, að því er kemur fram í tilkynningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Lárus er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig á sviði umhverfis- og auðlindamála. Hann var yfirlögfræðingur Orkustofnunar 2008-2011 og jafnframt staðgengill orkumálastjóra.

Lárus hefur frá 2019 starfað sem sérfræðingur á sviði orku- og umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins, en áður var hann lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Þá starfaði hann sem lögfræðingur á skrifstofu orkumála hjá iðnaðarráðuneytinu og félagsmálaráðuneytinu á árunum 2005-2008.

Lárus hefur enn fremur annast kennslu á sviði umhverfis- og auðlindaréttar ásamt því að vera prófdómari við Háskóla Íslands á framangreindum sviðum.

Lárus hefur gegnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum og hefur m.a. frá 2024 verið formaður norræna umhverfismerkisins Svansins á Íslandi og verið varaformaður í stjórn Úrvinnslusjóðs frá 2012.