Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, hefur verið ráðinn sem rekstrarstjóri (COO) fjárfestingarfélagsins Stoða. Hann tekur við starfinu af Júlíus Þorfinnssyni sem mun þó áfram sinna ákveðnum verkefnum fyrir Stoðir. Innherji greindi frá þessu í morgun.

Lárus, sem var forstjóri Glitnis á árunum 2007-2008, gaf út bókina Uppgjör bankamanns í vetur þar sem hann gerir upp tíma sinn hjá Glitni og því sem gekk á eftir fall bankanna.

Lárus, sem er hluthafi Stoða, hefur undanfarin ár starfað sem sjálfstæður ráðgjafi, m.a. fyrir 66°Norður, bresku matvörukeðjuna Iceland Foods og Stoðir. Þá er hann stjórnarformaður byggingarfélagsins Þingvangs.

Júlíus Þorfinnsson stýrði Stoðum á árunum 2010-2021 en tók við starfi rekstrarstjóra hjá fjárfestingarfélaginu fyrir rúmum tveimur árum. Jón Sigurðsson tók þá við starfi forstjóra en hann hafði áður verið stjórnarformaður fjárfestingarfélagsins. Júlíus mun áfram sinna ákveðnum verkefnum fyrir Stoðir en hann situr m.a. í stjórn Landeldis fyrir hönd Stoða.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um afkomu og fjárfestingar Stoða á dögunum.