Tilnefningarnefnd Sýnar hefur lagt til að allir sitjandi stjórnarmenn verði endurkjörnir á aðalfundi fjölmiðla- og fjarskiptafélagsins sem fer fram þann 17. mars næstkomandi. Í skýrslu tilnefningarnefndar segir að tvö utanaðkomandi framboð hafi borist nefndinni, annað til aðalstjórnar og hitt til bæði aðal- og varastjórnar.
Í byrjun þessa árs var tilkynnt um að stjórnarmaðurinn Sesselía Birgisdóttir hefði verið ráðin framkvæmdastjóri sölu-, þjónustu- og markaðsmála dótturfélagsins Vodafone. Sesselía sagði sig því úr stjórn Sýnar.
Salóme Guðmundsdóttir, sem sat í varastjórn, tók sæti Sesselíu í stjórninni. Tilnefningarnefnd félagsins hefur lagt til að Salóme haldi sæti sínu í stjórn félagsins. Salóme tók nýlega við starfi forstöðumanns í viðskiptaþróun hjá PayAnalytics en hún starfaði sem framkvæmdastjóri Klaks – Icelandic Startups árin 2014-2021.
Tilnefningarnefndin leggur því til að eftirtalin verði kjörin í stjórn Sýnar:
- Jón Skaftason, stjórnarformaður
- Rannveig Eir Einarsdóttir, varaformaður
- Hákon Stefánsson
- Páll Gíslason
- Salóme Guðmundsdóttir
Í tilnefningarnefnd Sýnar sitja Rannveig Eir sem fulltrúi stjórnar, Guðríður Sigurðardóttir og Þröstur Olaf Sigurjónsson, sem er formaður nefndarinnar.
Nefndin leggur til að Daði Kristjánsson verði endurkjörin varamaður í stjórn og að Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri VÍS, verði kjörin í varastjórn.
Stjórn Sýnar tók miklum breytingum í fyrra en Jón, Rannveig Eir og Hákon komu öll ný inn í stjórnina eftir breytingar og átök í hluthafahópi félagsins. Páll hefur setið lengst stjórnarmanna í stjórninni, eða frá vori 2021.