Íslandsbanki hefur ráðið Lilju Kristjánsdóttur í stöðu forstöðumanns viðskiptaeftirlits og Steinar Arason í stöðu forstöðumanns regluvörslu hjá bankanum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.
„Lilja Kristjánsdóttir hefur starfað hjá Íslandsbanka frá því á vordögum 2020, fyrst sem sérfræðingur í áhættustýringu og svo peningaþvættisvörnum frá hausti 2021. Áður en hún kom til Íslandsbanka var Lilja flugfreyja hjá Icelandair og þar áður verslunarstjóri hjá Nova. Þá er hún stjórnarmaður og einn af stofnendum líkamsræktarstöðvarinnar Afreks,“ segir í tilkynningu bankans.
Lilja er útskrifuð frá Háskólanum í Reykjavík með BA og ML gráðu í lögfræði 2019 og 2021. Eins hlaut hún CAMS sérfræðivottun ACAMS í peningaþvættisvörnum 2023.
„Steinar Arason hóf störf í regluvörslu Íslandsbanka í janúar 2024 þar sem hann hefur leitt umbótavinnu varna bankans í peningaþvætti. Þar áður starfaði hann í 20 ár hjá Landsbankanum meðal annars sem sérfræðingur í peningaþvættisvörnum bankans,“ segir í tilkynningu bankans.
Steinar er með próf í verðbréfamiðlun og útskrifaðist með BSc í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst árið 2003.