Lilja G. Karlsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri hjá VSB verkfræðistofu í júlí síðastliðnum en hún hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2021 sem sviðsstjóri byggðatæknisviðs.

Lilja G. Karlsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri hjá VSB verkfræðistofu í júlí síðastliðnum en hún hóf störf hjá fyrirtækinu árið 2021 sem sviðsstjóri byggðatæknisviðs.

VSB er hafnfirskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1987 og sinnir fjölbreyttri verkfræði- og ráðgjafaþjónustu.

„Undanfarið hafa ákveðin kynslóðaskipti verið að eiga sér stað og þá er gott að líta bæði yfir farinn veg og huga að framtíð fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur ávallt verið vel rekið en fráfarandi framkvæmdastjóri, Hjörtur Sigurðsson, hefur ákveðið að færa sig til innan fyrirtækisins og einbeita sér að þróunarmálum og gervigreind og saman hlökkum við til þeirra verkefna sem framundan eru,“ segir Lilja.

Lilja var verkefnastjóri Reykjavíkurborgar við stofnun Borgarlínuskrifstofunnar 2019-2021, rak sitt eigið fyrirtæki, Viaplan, frá 2015-2019 og starfaði hjá Cowi í Danmörku í sex ár þar á undan.

Lilja er formaður og stjórnarmeðlimur í ITS Ísland sem er vettvangur fyrir fyrirtæki og opinberar stofnanir til að efla tækni- og snjallvæðingu samgöngukerfisins, í samvinnu við systurfélög á Norðurlöndunum.

Hún er samgönguverkfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Danmarks Tekniske Universitet árið 2004. Lilja er gift Jónasi Þór Oddssyni, tölvunarfræðingi, og á þrjú börn.