Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur ráðið Davíð Arnar Runólfsson sem framkvæmdastjóra áfangastaða. Hann mun hafa umsjón með uppbyggingu og rekstri áfangastaða fyrirtækisins eins og Óbyggðasetursins, Kersins og Raufarhólshellis.

Davíð hefur starfað sem leiðsögumaður, landvörður og rekstrarstjóri í ferðaþjónustu frá árinu 2016. Samhliða nýju stöðunni mun Davíð jafnframt viðhalda starfi sínu sem framkvæmdastjóri Raufarhólshellis.

Árið 2002 byrjaði Davíð að starfa hjá CCP þegar fyrirtækið var við það að gefa út tölvuleikinn Eve Online. Hann hafði lært grafíska hönnun en hjarta hans lá alltaf í ljósmyndun og hafði hann lengi hugað að því að fara erlendis í ljósmyndanám.

„Ég ætlaði alltaf til Skotlands en svo fór ég óvænt til Montana í vinnuferð á ráðstefnu og fékk þá tækifæri til að skoða mig aðeins um þar. Mér fannst umhverfið alveg æðislegt og fór meðal annars til Yellowstone-þjóðgarðsins. Svo sá ég að háskólinn í Bozeman bauð upp á ljósmyndanám sem passaði 100% við það sem ég hafði áhuga á.“

Davíð byrjaði þar í námi haustið 2008 og segir að það hafi verið krefjandi tími en önnin hófst um það leyti sem hrunið skall á. Gengið hafði þá tvöfaldast og skólagjöldin hækkuðu til muna en hann ákvað engu að síður að halda áfram og sér ekki eftir þeirri ákvörðun í dag.

Eftir fimm ára búsetu í Montana hélt Davíð til Svíþjóðar í tveggja ára mastersnám við háskólann í Gautaborg. Að því námi loknu byrjaði hann að vinna í ferðaþjónustu í Norður-Noregi þar sem hann sá um leiðsögn í ljósmyndaferðum.

„Ég flutti síðan heim til Íslands árið 2017 þegar verið var að opna ferðirnar í Raufarhólshelli og byrjaði þá að vinna í leiðsögn. Síðan tók ég við sem framkvæmdastjóri Raufarhólshella eftir Covid. Þetta eru allt mjög fallegir staðir sem við erum með, hvort sem um er að ræða Kerið eða Fjaragljúfur.“

Nánar er fjallað um Davíð í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.