Lotte Rosenberg hefur verið ráðin í stöðu forstjóra íslenska hátæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) og Björk Kristjánsdóttir, sem sinnt hefur starfi tímabundins forstjóra frá 2022, hefur tekið við nýrri stöðu framkvæmdastjóra rekstrar- og fjármálasviðs hjá félaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Þar segir að félagið hafi á undanförnum tveimur árum unnið að stórum stórum alþjóðlegum verkefnum en í Kína hafi verið gangsettar tvær stærstu verksmiðjur sinnar tegundar sem eru byggðar á tækni og búnaði frá CRI. Þær nýti fangaðan koltvísýring sem hráefni til framleiðslu metanóls með lágu kolefnisspori. Einnig hafi félagið nýlega skrifað undir samstarf við þýska félagið P1 Fuels um afhendingu á framleiðslubúnaði og þjónustu við uppsetningu á rafeldsneytisverksmiðju í Þýskalandi.
„Lotte Rosenberg hefur yfirgripsmikla reynslu innan orkuiðnaðarins og starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá dönsku félögunum Ørsted, stærsta vindorkufyrirtæki heims, og Nature Energy sem selt var til Shell á síðasta ári. Síðast starfaði hún sem forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins WPU, sem sérhæfir sig í endurnýjun plastúrgangs yfir í olíu. Hjá fyrri félögum leiddi Lotte stefnumótandi vöxt, þróun alþjóðlegs samstarfs og uppbyggingu starfsstöðva í Evrópu og Norður-Ameríku. Mun reynsla hennar nýtast við frekari vöxt CRI,“ segir í fréttatilkynningu.
Sigurlína Ingvarsdóttir, stjórnarformaður CRI:
„Um leið og ég þakka Björk fyrir frábæra frammistöðu í hlutverki tímabundins forstjóra er ég mjög glöð að bjóða Lotte velkomna til Carbon Recycling International en ráðning hennar sem forstjóri er mikilvæg fyrir félagið sem nú byggir hratt upp öfluga alþjóðlega starfsemi. Víðtæk reynsla hennar sem leiðtogi og tengsl frá sterkum alþjóðlegum félögum af lykilmörkuðum félagsins verður kærkomin viðbót við hóp sterkra stjórnenda CRI.“
Björk leiddi 30 milljón bandaríkjadala fjárfestingarlotu á síðasta ári. Equinor Ventures var leiðandi fjárfestir en ásamt þeim fjárfestu Gildi, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Sjóvá í félaginu. Meðal annarra fjárfesta eru Methanex, Geely, Eyrir Invest, Norræni fjárfestingarbankinn (NEFCO), aðrir fjárfestar og einstaklingar.
Lotte Rosenberg, nýráðinn forstjóri CRI:
„Ég er spennt að hefja störf sem forstjóri CRI og nýta reynslu mína til þess að leiða vaxtarskeið félagsins á ört vaxandi mörkuðum fyrir grænar tæknilausnir. Félagið hefur sannreynda tækni sem er einstök á heimsvísu, til framleiðslu metanóls með lágu kolefnisspori. Félagið hefur einnig sterkan stuðning frá hluthöfum og reynslumikið stjórnendateymi sem gefur traustan grunn til að laða að hæfileikaríkt fólk og taka leiðandi stöðu á markaði.“
Um CRI:
Carbon Recycling International hefur frá árinu 2006 þróað Emissions-to-Liquids (ETL) tæknina til framleiðslu á grænu eldsneyti og efnavöru úr koltvísýringi. Tæknin hefur nú verið nýtt í stærstu verksmiðjur sinnar tegundar sem gangsettar hafa verið á síðustu tveimur árum. Félagið býður þannig upp á viðamikla þjónustu fyrir viðskiptavini sína, allt frá afhendingu tæknipakka og búnaðar og til stuðnings í þróun stærri verkefna í nýtingu koltvísýrings til framleiðslu metanóls. Með þróun og uppsetningu á tæknilausn sinni hefur CRI skapað sér leiðandi stöðu á alþjóðamarkaði fyrir grænar tæknilausnir sem endurnýta koltvísýring. CRI hefur nú þegar gert viðskiptavinum félagsins kleift að endurnýta yfir 300.000 tonn af koltvísýringi árlega til framleiðslu á vistvænu metanóli sem nýta má í efnavöru og sem eldsneyti.