Íslenska nýsköpunar- og matvælafyrirtækið Good Good hefur ráðið Arnar Jón Agnarsson í starf sölu- og markaðstjóra á Íslandi og fyrir Evrópumarkað. Arnar er frumkvöðullinn að baki Ólafsson gininu sem kom á markað 2020.

Arnar leiddi stofnun Eyland Spirits, framleiðanda Ólafsson ginsins og var framkvæmdastjóri fyrirtækisins þar til í byrjun þessa árs. Hann mun leiða markaðs- og söluátak Good Good á Íslandi og í Evrópu.

„Ég er vægast sagt spenntur fyrir þessu nýja verkefni. Good Good er feikilega flott og öflugt fyrirtæki og ég kann vel við mig í hringiðu nýsköpunar. Markmiðið að koma vörum fyrirtækisins á toppinn hér á landi og fylgja þannig eftir frábæru starfi og árangri í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir Arnar.

Good Good sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum með náttúrulegum innihaldsefnum án viðbætts sykurs. Vörur fyrirtækisins fást í rúmlega 10.000 verslunum í 36 löndum, þar af 1.000 Walmart verslunum.

„Það er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir okkur að fá Arnar í hópinn. Hann gjörþekkir hvernig á að koma vörumerki á framfæri svo eftir því sé tekið. Við höfum náð ótrúlegum árangri í USA þar sem við erum 14 stærsta sultumerkið þar í landi af 680. Nú viljum við fylgja eftir árangri okkar í USA og gefa verulega í hér á Íslandi, enda erum við íslenskt fyrirtæki og heimamarkaðurinn skiptir okkur miklu máli. Ég hef fulla trú á að Arnar muni koma öflugur til leiks og rúmlega það,“ segir Garðar Stefánsson forstjóri Good Good.