Magnús Árnason, stjórnarmaður hjá Nova, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í stjórnina á komandi aðalfundi þrátt fyrir að hafa verið meðal þeirra sem hlutu meðmæli tilnefningarnefndar til áframhaldandi setu í stjórn félagsins.

„Eftir rúm 8 ár, fyrst í framkvæmdastjórn Nova og svo undanfarin ár sem stjórnarmaður, er mér efst í huga þakklæti gagnvart því trausti sem mér hefur verið sýnt. Ég horfi til nýrra verkefna með mikilli tilhlökkun á sama tíma og ég held áfram að fylgja félaginu sem hluthafi,” segir Magnús í tilkynningu Nova til Kauphallarinnar.

Fyrir viku síðan birti félagið skýrslu tilnefningarnefndar fyrir aðalfundinn sem fer fram 27. mars næstkomandi. Nefndin, sem barst ekkert framboð nema frá sitjandi stjórnarmönnum, lagði til óbreytta stjórn.

Nú liggur fyrir að Magnús Árnason, sem tók sæti í stjórn Nova árið 2023, hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

„Af þessum sökum óskar tilnefningarnefnd félagsins nú öðru sinni eftir framboðum í stjórn félagsins, en tilnefningarnefnd mun fara yfir þau framboð sem berast og velja úr þeim frambjóðendur sem nefndin álítur hæfa til setu í stjórn félagsins.“

Breytt tillaga tilnefningarnefndar um skipan stjórnar verður birt viku fyrir aðalfund, þann 20. mars, með endanlegum tillögum stjórnar til fundarins.

Það verður spennandi að fá nýjan aðila í stjórn Nova en við þessi tímamót langar mig að þakka Magga fyrir frábært og gefandi samstarf, bæði sem starfsmaður og stjórnarmaður í Nova liðinu. Hann hefur skorað á okkur, gert okkur betri og óskum við honum góðs gengis í spennandi nýrri vegferð,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

Í stjórn Nova sitja eftirfarandi einstaklingar:

  • Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarformaður
  • Hrund Rudolfsdóttir
  • Jóhannes Þorsteinsson
  • Jón Óttar Birgisson
  • Magnús Árnason