Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, og Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og forstjóri lækninga í Læknasetrinu, voru kjörnir í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins í síðustu viku. Þá var Frosti Sigurjónsson kjörin í varastjórn. Þetta var tilkynnt á aðalfundi sjóðsins sem fór fram á fimmtudaginn síðasta.
Tíu frambjóðendur voru um tvö laus sæti karla í aðalstjórn auk þess sem eitt sæti var laust í varastjórn. Kjörtímabil stjórnarmanna Almenna eru þrjú ár í senn.
Stjórnarkjörið var haldið rafrænt í fyrsta sinn hjá Almenna og fór fram dagana 24. til 30. mars. „Mikill áhugi reyndist vera á kosningunni sjálfri en rúmlega fjórfalt meiri kjörsókn var í ár samanborið við þegar kosið var með hefðbundnu fyrirkomulagi á ársfundi,“ segir í tilkynningu á vef Almenna.
Stjórn Almenna árið 2022-2023 skipa:
- Hulda Rós Rúriksdóttir, formaður stjórnar
- Arna Guðmundsdóttir
- Már Wolfgang Mixa
- Ólafur H. Jónsson
- Sigríður Magnúsdóttir.
- Þórarinn Guðnason