Margrét Jónasdóttir hefur verið ráðin í starf aðstoðardagskrárstjóra RÚV. Margrét mun hafa faglega umsjón með innkaupum og framleiðslu á heimildaefni. Jafnframt leiðir hún, í samstarfi við dagskrárstjóra, hugmyndavinnu, þróun, framleiðslu, kaup, stefnumótun, gæðamat og gæðaeftirlit með öllu heimildaefni fyrir sjónvarp. Margrét tekur formlega til starfa 1. september í dagskrárdeild sjónvarps hjá RÚV.
„Meðal fyrirhugaðra verkefna er að endurskipuleggja ferla sem snúa að mati, vali, innkaupum og samframleiðslu RÚV á heimildaefni af hvers kyns toga og auka þannig skilvirkni og gagnsæi, styrkja gæðastjórnun og miðlun og almennt efla þátt heimildaefnis í dagskrá RÚV,“ segir í fréttatilkynningu.
Margrét er með MA próf í samtímasögu frá University College London og hefur lagt stund á MA-nám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún á að baki langan feril í framleiðslu og handritsskrifum heimildarmynda, lengst af í starfi yfirmanns heimildarmyndadeildar og aðalframleiðanda hjá Sagafilm.
Meðfram framleiðandastarfi hefur Margrét gegnt ýmiss konar nefndarstörfum og setið í stjórnum og dómnefndum sem tengjast kvikmyndagerð og heimildarmyndaframleiðslu, bæði hérlendis og erlendis.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV:
„Framundan eru spennandi verkefni við að skerpa á ferlum í kringum framleiðslu og innkaup heimildaefnis til að styrkja enn frekar stöðu heimildaefnis í dagskrárframboði RÚV, bæði í línulegri dagskrá og spilara. Það er mikill fengur í að fá Margréti til að leiða þá mikilvægu vinnu.“
Meðal helstu verka sem Margrét hefur framleitt og unnið handrit að eru verðlaunamyndirnar Out of Thin Air, um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem framleidd var fyrir BBC, RÚV og Netflix; Vasulka áhrifin, um Steinu og Woody Vasulka sem voru frumkvöðlar í videolist, framleidd í samstarfi við m.a. RÚV, SVT og DR; Hækkum rána, um ungar körfuboltastúlkur sem bjóða heiminum birginn, framleidd í samstarfi við Sjónvarp Símans, AVEK, finnska kvikmyndasjóðinn, VGTV og fleiri erlenda miðla; þáttaröðin Öldin hennar framleidd fyrir RÚV og sýnd í tengslum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna; The Show of Shows, listræn tónlistar- og sirkusmynd unnin í samstarfi við Sigur Rós fyrir BBC, RÚV og SVT; Andlit norðursins unnin í samstarfi við BBC, NDR/ARTE, RÚV og fjölda annarra erlendra sjónvarpsstöðva; og Fullveldisöldin, tíu þátta heimildasería unnin fyrir og sýnd á RÚV í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar.
Þá eru væntanleg heimildaverkefnin Hanging Out um ljósmyndarann Carinthiu West, framleidd í samstarfi við Símann og Good Banks/Bad Banks sem fjallar um eftirmála bankahrunsins á Íslandi, unnin í samstarfi við RÚV, BBC, SVT, DR og VPRO.