Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hefur gengið til liðs við Brunn Ventures. Margrét býr að reynslu á sviði tækni og fjármála. Hún hóf störf hjá Carbon Recycling International sem er alþjóðlegt fyrirtæki í umhverfistækni árið 2015. Hún hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins frá árinu 2017, nú síðast sem aðstoðarforstjóri. Áður var hún hjá Landsbankanum í ráðgjöf til fyrirtækja og í vöruþróun. Þar áður hjá verkfræðistofunni VGK.
Á undanförnum árum hefur hún verið í ýmsum stjórnum og ráðum ásamt því að hafa tekið þátt í verkefnum á vegum atvinnulífs og stjórnvalda. Hún tók nýverið sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins. Margrét er iðnaðarverkfræðingur og lauk jafnframt M.Sc. prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. prófi í orkukerfum og orkustjórnun frá The School of Renewable Energy Science.
„Á síðasta áratug hefur reynsla fjárfesta á sviði nýsköpunar tekið stakkaskiptum. Í dag eru kjöraðstæður fyrir ný fjárfestingatækifæri í nýsköpun, hvort sem litið er til regluverks, stuðnings, reynslu eða aðgengi sprota að hæfu starfsfólki,“ segir Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.
„Ísland býr einnig vel að góðu aðgengi að samstarfi við iðn- og orkufyrirtæki til nýsköpunar til að bæta ferli eða að breyta úrgangi í verðmæti en það liggur einmitt vel að minni reynslu og menntun. Ég hlakka mikið til að vinna fyrir og með efnilegum sprotum þannig að úr verði ný stórfyrirtæki sem skila virði fyrir fjárfesta, starfsfólk og íslenskt atvinnulíf.“
Brunnur Ventures sem hefur fjárfest í 11 íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum en vinna nú að því að koma á fót átta milljarða vísisjóði sem bera mun nafnið Brunnur vaxtarsjóður II. Standa vonir til að ná þátttöku stofnanafjárfesta, eins og lífeyrissjóða, auk annarra fagfjárfesta í þetta mikilvæga verkefni.