Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir hefur hafið störf sem grafískur hönnuður hjá samskiptafélaginu Aton.JL. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu, þar sem segir að Margrét komi inn í ört stækkandi hönnunarteymi félagsins með starfsreynslu bæði hér heima og erlendis.

Margrét lærði grafíska hönnun í Listaháskóla Íslands og hefur frá útskrift árið 2019 starfað sem hönnuður í Svíþjóð og á Íslandi. Fyrst á hönnunarstofunni Stockholm Design Lab og síðan á hönnunar- og auglýsingastofunni TVIST í Reykjavík, þar sem hún hefur starfað síðastliðin tvö ár. Þá hefur hún einnig látið að sér kveða sem sjálfstætt starfandi hönnuður í tónlistar- og menningarheiminum.

„Margrét hefur hæfileika og þekkingu sem koma til með að styrkja hönnunarteymi okkar á Aton.JL enn frekar. Á síðastliðnu ári höfum við gert ýmsar áherslubreytingar til þess að sérfræðiþekking og reynsla starfsfólks okkar nýtist viðskiptavinum ennþá betur. Margrét er mikilvæg viðbót í teymið okkar og gerir okkur kleift að takast á við enn fjölbreyttari verkefni,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL, í fréttatilkynningu.