María Kristín Guðjónsdóttir hefur gengið til liðs við Defend Iceland þar sem hún mun stýra sölu- og markaðsmálum fyrirtækisins. Hún er með MSc í alþjóðaviðskipta- og markaðsfræði úr HR og BSc í næringarfræði úr Hí.
Þá var María áður forstöðumaður viðskiptaskrifstofu breska sendiráðsins í Reykjavík. Hún hefur einnig búið bæði í Hollandi og Bretlandi og byggt upp fjölbreytta reynslu í sölu- og markaðsmálum frá fyrirtækjum líkt og Weetabix, Little Moons og BioEffect.
„Netöryggi er algjörlega nýr vettvangur fyrir mig en áhuginn á öryggismálum kviknaði í starfi mínu hjá sendiráðinu þar sem ég fékk góða innsýn inn í öryggis- og varnarmál. Það var sérstaklega áhugavert að sjá hve mismunandi áherslan og nálgunin er á þennan málaflokk í Norður-Evrópu. Heildræn nálgun Defend Iceland heillaði mig gjörsamlega úr skónum og hvernig þau vilja virkja samfélagið í að efla öryggi tækniinnviða landsins,“ segir María
Defend Iceland er íslensk villuveiðigátt sem er hugbúnaður þar sem lýðvirkjaðir öryggissérfræðingar herma aðferðir tölvuglæpamanna við leit í öryggisveikleikum. Markmið Defend Iceland er að auka öryggi í stafrænum samfélögum og sjá til þess að öryggisveikleikar séu lagfærðir áður en hægt væri að valda alvarlegum skaða.
„Það er mikið fagnaðarefni að fá hana Maríu til liðs við okkur í Defend Iceland og fá að geta nýtt hennar reynslu og þekkingu. Þekking Maríu af öryggis- og varnarmálum er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur því við horfum ekki á þetta bara sem hugbúnaðarlausn heldur sem lausn og aðferðafræði sem er algerlega nauðsynleg fyrir öryggis- og varnarmál samfélaga eins og heimurinn er orðinn í dag,“ segir Theódór Ragnar Gíslason, framkvæmdarstjóri og meðstofnandi Defend Iceland.