Tilnefningarnefnd Arion banka hefur lagt til að Marianne Gjertsen Ebbesen verði kjörin ný í stjórn bankans. Liv Fiksdahl, sem hefur setið í stjórn Arion síðan 2019, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndar bankans.

Nefndin leggur til að allir sitjandi stjórnarmenn sem gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu verði endurkjörnir. Eftirfarandi einstaklingar eru því tilnefndir í stjórn Arion:

  • Paul Horner, stjórnarformaður – setið í stjórninni frá því í ágúst 2019.
  • Kristín Pétursdóttir, varaformaður stjórnar – tók fyrst sæti í stjórn í mars 2023.
  • Steinunn Þórðardóttir, stjórnarmaður – tók fyrst sæti í stjórn í nóvember 2019.
  • Gunnar Sturluson, stjórnarmaður – tók fyrst sæti í ágúst 2019.
  • Marianne Gjertsen Ebbesen

Marianne Gjertsen Ebbesen er norskur ríkisborgari. Hún er framkvæmdastjóri hjá OBOS, sem er einn stærsti framleiðandi íbúðarhúsnæðis í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Marianne starfaði áður m.a. hjá norrænu bönkunum DNB og Nordea.

Tilnefningarnefnd leggur til að Paul Horner verði endurkjörinn formaður stjórnar og Kristín Pétursdóttir endurkjörin varaformaður stjórnar.

Átta framboð – þrír drógu til baka

Í skýrslu tilnefningarnefndar kemur fram að nefndinni bárust átta framboð til aðalstjórnar, en eitt þeirra var dregið til baka stuttu síðar. Af þeim sjö framboðum sem tekin voru til skoðunar voru fjögur frá sitjandi stjórnarmönnum.

Að mati nefndarinnar höfðu þeir tveir frambjóðendur sem ekki hlutu tilnefningu ekki til að bera sambærilega hæfni, reynslu, bakgrunn og þekkingu og er til staðar í tilviki Marianne Gjertsen Ebbesen, sem og í tilviki hinna fjögurra sitjandi stjórnarmanna sem gáfu kost á sér til endurkjörs.

Hinir frambjóðendurnir tveir drógu báðir framboð sín til baka eftir að hafa verið upplýstir um niðurstöðu tilnefningarferlisins. Frambjóðendurnir óskuðu báðir eftir því að nafns þeirra yrði ekki getið í skýrslu tilnefningarnefndar.

Átt marga fundi með stærstu hluthöfunum

Í skýrslunni er vikið að bréfi sem barst frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LIVE), næst stærsta hluthafa bankans með 8,9% hlut, í desember síðastliðnum. LIVE, sem sendi umrætt bréf til allra skráðra íslenskra félaga sem sjóðurinn er hluthafi í og tilnefningarnefnda þeirra.

Í bréfinu kallar LIVE eftir auknu gagnsæi um stjórnarframboð og hvetur félögin til að veita hluthöfum betri upplýsingar um aðra frambjóðendur en þá sem eru hluti af tillögum nefndanna.

Tilnefningarnefnd Arion segist hafa átt á síðustu vikum marga fundi með stærstu hluthöfum bankans, sem samanlagt eiga meirihluta hlutafjár í bankanum, þar sem farið var yfir tilnefningarferlið í heild sinni.

„Tilnefningarnefnd Arion banka hefur á þessum fundum upplýst stærstu hluthafa bankans um öll framkomin framboð að því marki sem trúnaður leyfði, fært rök fyrir tilnefningum sínum og móttekið sjónarmið hluthafa,“ segir í skýrslunni.

„Það er mat nefndarinnar að skilvirk samskipti milli tilnefningarnefnda og hluthafa séu til þess fallin þess að auka traust hluthafa á tilnefningarferlinu.“

Í tilnefningarnefnd Arion sitja Júlíus Þorfinnsson, formaður nefndarinnar, Auður Bjarnadóttir og Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir.