Þjónustu- og ráðgjafafyrirtækið Maven ehf., hefur fengið nýjan meðeiganda og skrifstofustjóra til liðs við sig, sem er ætlað að styrkja stöðu fyrirtækisins sem leiðandi fyrirtæki í nýsköpun við nýtingu gagna í rekstri fyrirtækja og stofnana.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu þar sem segir að í upphafi ársins hafi stjórn Maven kynnt eignarhaldsferli sem gerir lykilstarfsmönnum kleift að eignast hlut í félaginu. Markmið þessa ferils sé að styðja við framtíðaruppbyggingu félagsins, meðal annars með því að tvinna saman hagsmuni félagsins og starfsmanna.

Helga Hrund Friðriksdóttir er ný í hópi eigenda hjá Maven, en hún hefur starfað hjá Maven síðan árið 2022. Helga Hrund er með B.Sc. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði gagnagreininga. Hún starfaði áður hjá Marel sem sérfræðingur í viðskiptagreind.

Anna Kristín Ólafsdóttir er nýr skrifstofustjóri Maven. Anna Kristín lauk nýverið B.Sc. gráðu í Viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Samhliða námi starfaði hún hjá Norðuráli á Grundartanga og Hörðuvallaskóla, en fyrir þann tíma gegndi hún stöðu skrifstofu- og starfsmannastjóra hjá Öldurhúsum og síðar sem skrifstofustjóri Kjarnavara.

„Helga hefur haft ómetanleg áhrif á þróun Maven til hins betra. Hún er mikill liðsfélagi, hefur bætt innra starf okkar og einnig styrkt tengsl við mikilvæga viðskiptavini. Ferill hennar frá gagnasérfræðingi til meðeiganda sýnir einstakan vöxt hennar og stefnumótandi sýn á sviði upplýsingatækni. Þá bjóðum við Önnu Kristínu velkomna í nýtt starf skrifstofustjóra, en fjölbreytt reynsla hennar í stjórnun og starfi að jákvæðri vinnustaðamenningu og vinnuumhverfi mun styrkja okkur í ört vaxandi fyrirtæki,“ segir Helgi Hrafn Halldórsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Maven.

Um Maven

Maven er framsækið þekkingarfyrirtæki í upplýsingatækni sem hóf rekstur sinn árið 2021. Félagið býður upp á framsæknar lausnir í vaxandi geira þjónustu- og ráðgjafarfyrirtækja í upplýsingatækni og nýtingu ganga. Maven vinnur náið með fyrirtækjum og stofnunum í að umbreyta gögnum í þekkingu og verðmæti. Lögð er áhersla á að þróa skapandi og nýstárlegar leiðir til að greina, skilja og nýta gögn til hins ýtrasta. Maven er með höfuðstöðvar í Reykjavík og rekur starfsstöð á Akureyri.