Ég er mjög spennt að takast á við nýtt verkefni, en ég hef ekki setið í stjórn hjá skráðu félagi áður,“ segir Pálína María Gunnlaugsdóttir sem var nýverið kosin í stjórn fasteignafélagsins Kaldalóns.

Pálína hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra fjárfestingarfélagsins IREF ehf. frá því í fyrra. Félagið stendur nú að undirbúa opnun Hótels Flateyjar fyrir sumarið, sem er í miðju gamla þorpsins í Flatey, í hjarta Breiðafjarðar. „Húsin í gömlu miðstöðinni eru timburvirki frá fyrri velmegunartímum eyjunnar og flest þeirra hafa verið endurreist í sínum upprunalega stíl. Æðislegur staður þar sem tíminn stendur svolítið í stað.“

Pálína er fyrrverandi landsliðsfyrirliði í körfubolta og á að baki 33 landsleiki. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga, þar á meðal valin besti leikmaður Íslands árin 2009, 2012 og 2013. „Ég æfði alltaf mjög mikið og af miklum krafti og tók það með mér inn í atvinnulífið. Ég er enn mjög virk að æfa og hjóla um 200 kílómetra á viku.“

Úrslitakeppnin í körfubolta hófst nú í vikunni, en líkt og síðastliðin ár er Pálína á skjám landsmanna að greina leikina í þaula. Þess má geta að Pálína varð Íslandsmeistari fimm sinnum á sínum leikmannaferli, tvisvar með uppeldisfélaginu Haukum og þrisvar með Keflavík. „Ég var í þessum aðstæðum sjálf og á auðvelt með að sjá hvernig lið eru stemmd í leikinn og hvort þau séu tilbúin.“

Pálína er gift Kjartani Atla Kjartanssyni, fjölmiðlamanni og þjálfara meistaraflokks Álftaness í körfu. Saman eiga þau tvær dætur, þriggja og fjórtán ára. Hún segir áskorun að samþætta ólíkar þarfir stelpnanna vegna aldursbilsins en bætir við að þau fari að minnsta kosti árlega til Flórída, þar sé eitthvað við hæfi fyrir alla í fjölskyldunni.

„Við fáum mikið út úr fríinu okkar í Flórída. Ég elska að hreyfa mig í hitanum og Kjartan græðir á tímamismuninum þegar úrslitakeppnin í NBA er í fullum gangi. Svo má segja að fjölskyldan eigi sameiginlegt áhugamál sem felst í að heimsækja Universal skemmtigarðana og höfum við verið tryggir ársmiðahafar síðastliðin sjö ár.“

Nánar er rætt við Pálínu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.