Þetta er mjög spennandi tækifæri," segir Búi Örlygsson, sem hefur tekið við stöðu forstöðumanns Eignastýringar hjá Landsbankanum sem er hluti af sviðinu Eignastýring og miðlun. Hann segir nýja starfið fela í sér fagfjárfestaþjónustu og einkabankaþjónustu.

20 ár hjá Landsbankanum

Búi býr yfir mikilli reynslu á sviði eignastýringar enda hefur hann starfað á því sviði hjá bankanum frá árinu 2005. „Ég hef alltaf verið viðloðandi verðbréfaþjónustu og eignastýringu, en ég byrja í þessari svokölluðu einkabankaþjónustu sem er hluti af eignastýringaþjónustu okkar árið 2005, og hef verið í henni þar til nú.“ Hann segir nýja starfið fela í sér fagfjárfestaþjónustu og einkabankaþjónustu.

Búi viðurkennir fúslega að hann hafi ekki séð fyrir sér, á sínum tíma, að starfa í meira en tuttugu ár samfleytt hjá sama fyrirtækinu. „Ég verð alveg heiðarlegur með það, að það var ekki framtíðarsýnin. Þetta hefur verið einstaklega góður og líflegur vinnustaður og skemmtileg verkefni sem við höfum fengið að takast á við. Ekkert alltaf auðveld, en alltaf haldið í mann," segir Búi.

Býr nálægt golfvellinum

Búi ólst upp á Akranesi og er dyggur Skagamaður. Hann býr enn á Akranesi og hefur keyrt þaðan í vinnuna undanfarin 16 ár. Hann á tvö börn, sextán ára og tuttugu ára með eiginkonu sinni, Rakel Óskarsdóttur framkvæmdastjóra. Hann nýtur þess að spila golf og nýtir hvert tækifæri sem gefst til að taka golfhring. Þar kemur sér til góða að búa nærri Garðavelli við Akranesi sem og að vera í Golfklúbbnum Leyni. „Það eru algjör forréttindi að búa rétt hjá golfvellinum og komast í golf þegar maður vill."

Búi stundar einnig bæði stangaveiði og skotveiði og er formaður Stangaveiðifélags Akraness. Hann bætir því jafnframt við að börnin hans séu ekki síður áhugasamir veiðimenn. „Við reynum að fara á hverju ári að veiða saman."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .