Ný stjórn hefur verið skipuð yfir Carbfix hf., dótturfélag Carbfix ohf. Ný í stjórninni eru Nana Bule, stjórnarformaður, Benedikt K. Magnússon, Brynhildur Davíðsdóttir og Tómas Már Sigurðsson.

Nana Bule hefur yfir 20 ára reynslu sem stjórnandi í tæknigeiranum en hún var forstjóri Microsoft í Danmörku og á Íslandi þar til fyrr á þessu ári og starfar nú sem ráðgjafi hjá Goldman Sachs. Hún er formaður stjórnar danska ráðsins um stafræn málefni og leiðir starfshóp danskra stjórnvalda um endurnýjanlega orku. Hún situr í stjórnum Energinet, Arla Foods og Novo Nordisk Foundation.

Benedikt K. Magnússon er fjármálastjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann var áður sviðsstjóri ráðgjafarsviðs KPMG á Íslandi og hefur yfir 20 ára reynslu af ráðgjafarstörfum hjá KPMG, þar sem hann var einnig meðeigandi og stjórnarmaður.

Dr. Brynhildur Davíðsdóttir er prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af kennslu, rannsóknum og ráðgjöf. Hún er varaformaður Loftslagsráðs og situr í stjórn Arctic Circle Foundation. Brynhildur sat einnig í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur árin 2011-2022, síðustu sex árin sem stjórnarformaður.

Tómas Már Sigurðsson er forstjóri HS Orku. Hann starfaði áður í 16 ár fyrir Alcoa, meðal annars sem forstjóri Alcoa á Íslandi, forstjóri Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum og aðstoðarforstjóri Alcoa á heimsvísu. Hann hefur verið formaður Verslunarráðs og setið í stjórnum Samtaka iðnaðarins, Europe Aluminium, Eurometaux og Business Europe.

Elín Smáradóttir yfirlögfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur situr áfram í stjórninni.