Nýsköpunarsjóðurinn Kría (NSK) Sjóðurinn hefur ráðið til sín tvo nýja fjárfestingastjóra sem taka annars vegar við sjóðafjárfestingum og hins vegar við beinum fjárfestingum og eftirfylgni með eignasafni. Störfin voru auglýst í febrúar sl. og bárust um þau alls 44 umsóknir.

Edda Lára Lúðvígsdóttir hefur tekið við sem fjárfestingastjóri sjóðafjárfestinga hjá NSK. Hún starfaði áður hjá Coca-Cola á Íslandi sem leiðtogi í mannauðsmálum en þar áður sem forstöðumaður fjárfestatengsla hjá Össuri, sjóðstjóri hjá Gamma Capital Management, verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og lánastjóri á fyrirtækjasviði bankans.

Edda Lára situr í stjórn Driftar EA, miðstöðvar frumkvöðla og nýsköpunar. Hún sat áður í stjórnum Dansk Investor Relations Forening í Danmörku, Ölmu íbúðafélags og Smárabyggðar sem er eigandi fasteignaverkefnisins 201 Smári.

Edda Lára er með B.Sc. í viðskiptafræði og M.Sc. í fjármálum fyrirtækja frá HR og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Valdimar Halldórsson hefur verið ráðinn fjárfestingastjóri beinna fjárfestinga og eftirfylgni með eignasafni.

Valdimar hefur verið sjálfstætt starfandi sem ráðgjafi og stjórnarmaður undanfarin fjögur ár og sat m.a. í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og í nokkrum sprotafyrirtækjum á vegum sjóðsins. Hann hefur reynslu af stjórnarsetu m.a. hjá Stapa lífeyrissjóði, Orkuveitu Húsavíkur, ISAVIA og var stjórnarformaður Fríhafnarinnar.

Valdimar starfaði sem framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf., og Hvalasafnsins á Húsavík, í fyrirtækjaráðgjöf HF Verðbréfa og Marko partners, sem aðstoðarmaður atvinnuvegaráðherra, í greiningardeild Íslandsbanka og hjá Þjóðhagsstofnun.

Valdimar er með B.A. gráðu í hagfræði frá HÍ og University of Oslo í Noregi og M.Sc. í viðskiptafræði frá HÍ.

„Það er mikill fengur af því að fá svo reynslumikið fólk til starfa, ekki einungis fyrir okkur heldur allt nýsköpunarsamfélagið. Þau hafa bæði umfangsmikla reynslu af fjárfestingum og því að starfa á síkvikum fjármálamarkaði auk þess að hafa komið að fyrirtækjarekstri. Ég hlakka mikið til samstarfsins og þess að Nýsköpunarsjóðurinn Kría taki nú flugið,“ segir Hrönn Greipsdóttir forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría tók til starfa í byrjun árs 2025 við samruna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu sprota- og nýsköpunarsjóðs. Nýsköpunarsjóðurinn Kría tók við eignum og skuldbindingum sjóðanna og að lokinni stefnumótunarvinnu sem unnin var með stjórn sjóðsins og Expectus er starfsemin nú komin af stað.

Hinum nýja sjóði er ætlað að fjárfesta í sjóðum sem sérhæfa sig í fjármögnun á fyrstu stigum fyrirtækja sem og beint í sprotafyrirtækjum samkvæmt fjárfestingastefnu sem stjórn sjóðsins setur hverju sinni í takti við stefnu stjórnvalda. Eignasafn sjóðsins samanstendur af eignarhlutum í fjórum innlendum vísisjóðum ásamt eignarhlutum og lánasafni í yfir 30 sprotafyrirtækjum.