VÍS hefur ráðið tvo nýja forstöðumenn. Trausti Sigurður Hilmisson hefur verið ráðinn forstöðumaður markaðsmála og upplifana og Jóhanna Hauksdóttir verið ráðin forstöðumaður einstaklingsviðskipta. Þau hafa þegar hafið störf.

Trausti Sigurður mun bera ábyrgð á markaðsstarfi og áframhaldandi uppbyggingu vörumerkis VÍS. Trausti hefur áralanga reynslu af markaðsmálum, sinnt markaðsherferðum síðustu ára, borið ábyrgð á vörumerkjarannsóknum og vöruþróun.

Trausti hefur starfað síðustu átta ár hjá VÍS en þar áður var hann hjá VERT markaðsstofu.

„Ég hlakka til að halda áfram því frábæra starfi sem unnið hefur verið í markaðsmálum VÍS undanfarin ár og tek stoltur við öflugu teymi sem ég þekki vel og hef verið svo heppinn að vera hluti af,“ segir Trausti.

Jóhanna mun bera ábyrgð á sölu og þjónustu til einstaklinga um land allt og hafa yfirumsjón með öllum þjónustuskrifstofum VÍS. Hún mun leiða áframhaldandi vöxt á einstaklingsmarkaði.

Jóhanna hefur síðastliðin fjögur ár starfað sem verkefnastjóri hjá VÍS og leitt lykilverkefni sem tengjast stafrænni umbreytingu fyrirtækisins. Áður starfaði hún hjá Arion banka, bæði að verkefnum í stafrænni þróun og þjónustu við viðskiptavini.

„Ég er mjög spennt fyrir nýju hlutverki hjá VÍS og því að leiða magnað teymi sem brennur fyrir því að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu á hverjum degi. Við ætlum okkur stóra hluti þegar kemur að sókn og þjónustuupplifun og ég hlakka til að taka þátt í þeirri spennandi vegferð,“ segir Jóhanna.

„Ég er gríðarlega spennt að vinna með Trausta og Jóhönnu, þau hafa fyrir löngu sannað sig innan VÍS, þekkja fyrirtækið vel og eru sannarlega í stakk búin að tryggja áframhaldandi sýnileika VÍS, tryggja áframhaldandi aukningu á markaðshlutdeild samhliða bættri þjónustu um allt land,“ segir Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS.