Nýverið bættust við í eigendahóp PwC þeir Daníel J. Guðjónsson og Örn Valdimarsson. Þar með eru eigendur PwC á Íslandi orðnir 17 talsins.

Daníel útskrifaðist með MAcc gráðu frá Háskóla Íslands árið 2013 og hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2018.

Hann hefur starfað hjá PwC í rúm tíu ár og á þeim tíma hefur hann stýrt stórum endurskoðunarverkefnum og verið ábyrgðarmaður fyrir innleiðingu skrifstofunnar á nýjum tæknilausnum.

Daníel hefur komið víða við og m.a. unnið á skrifstofu PwC í Svíþjóð. Hann situr í skattanefnd FLE og komið að samningu löggildingarprófa í endurskoðun.

Örn lauk BS prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og Executive Certificate námi frá Copenhagen Business School.

Hann hefur starfað hjá PwC frá miðju ári 2023 þegar hann tók við ráðgjafarsviði PwC.

Örn hefur mikla reynslu úr viðskiptalífinu, meðal annars hjá Viðskiptablaðinu og Eyrir Invest og hefur auk þess miðlað þeirri þekkingu í hlutverki mentors til sprotafyrirtækja.

„Það er okkur mikil ánægja að fá þá Örn og Daníel inn í eigendahópinn. Þeir eru báðir afar færir og kraftmiklir og búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á fagsviðinu. Ég býð Örn og Daníel hjartanlega velkomna í eigendahóp PwC,” segir Ljósbrá Baldursdóttir forstjóri PwC.