Sjóvá hefur ráðið Láru Hrafnsdóttur í stöðu markaðsstjóra hjá tryggingafélaginu. Þá hefur Ásta Björg Ingadóttir tekið við nýju hlutverki sem forstöðumaður tekjustýringar á sölu- og ráðgjafasviði.
Lára Hrafnsdóttir, nýr markaðsstjóri Sjóvá, hefur starfað lengi á sviði markaðsmála meðal annars hjá Saxo Bank í Kaupmannahöfn, Arion banka og nú síðast sem markaðsstjóri hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Lucinity. Hún er með tvöfalda meistaragráðu í markaðsfræði og stjórnun frá Copenhagen Business School.
„Ég er mjög spennt að taka við starfi markaðsstjóra hjá Sjóvá, félagi sem hefur skapað sér trausta stöðu á íslenskum markaði með langa og farsæla sögu,“ segir Lára.
„Framúrskarandi þjónusta einkennir Sjóvá og hefur skilað sér í einstakri tryggð viðskiptavina, eins og sést í mælingum Ánægjuvogarinnar síðustu átta ár. Samfélagið verður sífellt fjölbreyttara, sem kallar á nýjar nálganir í þjónustu. Sömuleiðis eru kröfur viðskiptavina um tækninýjungar og snjallar lausnir að aukast. Ég hlakka til að vinna með frábæru teymi til að nýta þessi tækifæri, tryggja áframhaldandi sterka stöðu á markaðnum og skapa spennandi framtíð fyrir Sjóvá.“
Ásta Björg Ingadóttir, sem tekur við starfi forstöðumanns tekjustýringar á sölu- og ráðgjafasviði Sjóvá, hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2016. Þar áður starfaði hún sem stærðfræðikennari hjá Verzlunarskóla Íslands. Ásta er með M.Sc. í tryggingastærðfræði frá Boston University og B.Sc. í stærðfræði frá Háskóla Íslands.
„Eftir að hafa starfað hjá Sjóvá síðastliðin 8 ár hef ég kynnst starfsemi félagsins vel og tek stolt við nýju hlutverki. Ég hlakka til að vinna með öflugu teymi Tekjustýringar sem ég lít á sem eitt af lykilsviðum Sjóvá. Meðal verkefna eru verðlagning og þjónusta við framlínu, bæði þessi verkefni eru á fleygiferð samhliða örum samfélagsbreytingum. Áskoranir liggja í því að vera síkvik í allri okkar vinnu við að mæta þörfum viðskiptavina en í þeim felast jafnframt tækifæri á að bjóða uppá nútímalega og framúrskarandi þjónustu,“ segir Ásta.