Þrír nýir stjórnendur hafa hafið störf hjá Bónus. Hildur Guðlaugsdóttir er nýr vöruflokkastjóri, Pétur Sigurðsson er nýr verkefnastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar og Örvar Þór Kristjánsson er nýr innkaupastjóri.
Hildur Guðlaugsdóttir hefur hafið störf sem vöruflokkastjóri Bónus. Hún er með yfir tuttugu ára reynslu í innkaupum, vöruflokkastjórnun, vöruþróun, stefnumótun og markaðsmálum. Hún hóf störf hjá Hagkaup strax eftir lok B.Sc.-náms og starfaði þar sem innkaupastjóri. Síðan þá hefur hún starfað sem innkaupastjóri bæði hjá Krónunni og Nettó.
Síðustu tvö ár starfaði hún sem sérfræðingur í stefnumótandi innkaupum hjá Ríkiskaupum þar sem hún bar ábyrgð á rammasamningum ríkisins. Hildur er með B.Sc. í viðskiptafræði og með M.Sc. í auglýsingastjórnun frá Boston University.
Pétur Sigurðsson hefur verið ráðinn sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar. Um er að ræða nýja stöðu innan Bónus, sem felst í að sinna ráðgjafastörfum fyrir framkvæmdastjórn ásamt því að hafa yfirumsjón á stefnumótun og innleiðingu á framtíðarstefnu Bónus. Pétur starfaði áður sem sérfræðingur í stefnumótandi innkaupum hjá Ríkiskaupum, þar áður vann hann á fjármála- og innkaupasviði Novo Nordisk í Danmörku um nokkurra ára skeið.
Þá hefur Pétur stundað nám í Danmörku, Bandaríkjunum og Portúgal og er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og tvöfalda M.Sc. gráðu í stefnumótun og CEMS MiM í alþjóðlegri stjórnun.
Örvar Þór Kristjánsson hefur hafið störf sem innkaupastjóri Bónus. Hann er með víðtæka reynslu á sviði innkaupa og aðfangastýringar, en hann hefur starfað hjá Marel í mismunandi innkaupatengdum störfum síðastliðin 14 ár, m.a. sem alþjóðlegur vöruflokkastjóri og sem forstöðumaður innkaupa hjá Marel á Íslandi.
Reynsla og sérfræðiþekking Örvars mun styðja við komandi vegferð Bónus þar sem vöruflokkastýring mun fá aukna áherslu. Örvar er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði ásamt víðtækri aðfangastýringarmenntun hjá innkaupaskóla Marel: „Marel Procurement Academy“. Örvar er iðnaðarmaður í grunninn og með sveinspróf í stálvirkjasmíði.
„Það er mikill fengur fyrir okkur í Bónus að fá inn framúrskarandi fólk með fjölbreytta reynslu til að styrkja enn frekar við það öfluga teymi sem er til staðar í Bónus í dag. Þessar ráðningar endurspegla vel okkar vegferð og sýn varðandi það að finna nýjar leiðir til að gera enn betur í að bjóða viðskiptavinum okkar upp á hagkvæmustu matarkörfuna,“ segir Björgvin Víkingsson, framkvæmdastjóri Bónus.