Bergrún Ólafsdóttir og Jón Þór Hallgrímsson eru nýir verkefnastjórar hjá Samkaupum.

Jón Þór hefur verið ráðinn verkefnastjóri fjármála og reikningshalds á fjármála- og rekstrarsviði Samkaupa. Hann mun vinna náið með fjármálastjóra Samkaupa og gegna lykilhlutverki í nútímavæðingu og almennri uppbyggingu fjármálasviðs samhliða því að sjá um daglegan rekstur fjármála- og reikningshaldsdeildar.

Hann hefur yfirgripsmikla reynslu af vinnu á fjármálasviði og kemur með ítarlega þekkingu inn í fyrirtækið á reikningshaldi, fjármálagreiningu og endurskoðun.

Jón Þór kemur til Samkaupa frá Kerecis þar sem hann hefur starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði frá árinu 2022 en þar áður var hann sérfræðingur á endurskoðunarsviði Deloitte 2017-2022. Hann er með Macc. gráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík og BSc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Bergrún Ólafsdóttir hefur þá verið ráðin verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum. Hún mun leiða samstarf Samkaupa við Pure North sem felur í sér heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun, samhliða eftirfylgni með umhverfismarkmiðum Samkaupa og verslana fyrirtækisins; Nettó, Kjörbúð og Krambúð.

Hún kemur til Samkaupa frá Hjálpræðishernum á Íslandi þar sem hún hefur starfað frá byrjun árs 2021 sem verslunar- og verkefnastjóri. Í starfi sínu hjá Hjálpræðishernum leiddi Bergrún verkefni um mataraðstoð, gegn matarsóun, með Samkaupum sem á fyrstu fimm mánuðum verkefnisins leiddi til rúmlega 20 milljóna króna styrks og gefur nú allt að 300 einstaklingum daglega að borða.

Bergrún er menntuð í fata- og textílhönnun og hlaut á árinu umhverfisviðurkenningu Reykjanesbæjar fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu.

„Það eru spennandi tímar fram undan hjá okkur í Samkaupum og mörg verkefni í bígerð. Því er mikill fengur í því að fá reynslumikið og hæfileikaríkt fólk eins og Jón Þór og Bergrúnu til okkar. Jón Þór mun leiða nútímavæðingu fjármálasviðsins sem er mikilvægt skref fyrir fyrirtækið og uppbyggingu þess, meðan Bergrún kemur inn í vegferð okkar með Pure North,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.