Cecilia Agneta Ståhle hefur tekið við hlutverki ábyrgðarmanns vegna aðgerða Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Hún mun stýra sjálfstæðri einingu innan regluvörslu sem hefur það hlutverk að leiða vinnu við gerð og uppfærslu áhættumats til að bera kennsl á og meta hættu á peningaþvætti.

Teymið mun einnig fylgja eftir innleiðingu á stefnum, stýringum, og verkferlum til að draga úr og stýra peningaþvættisáhættu. Þá mun það sinna reglubundnu eftirliti með framkvæmd bankans í þessum efnum.

Cecilia, sem jafnframt er staðgengill regluvarðar bankans, er viðskiptafræðingur frá BI Norwegian Business School í Osló. Hún hefur starfað hjá Arion banka frá því í maí 2022 og tók við sem staðgengill regluvarðar í maí 2023. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði, bæði á sviði rekstrar og innra eftirlits, en einna helst af aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Áður en hún hóf störf hjá Arion banka starfaði hún sem regluvörður sænska bankans Ikano Bank AB, sem er einnig með starfsemi í Danmörku, Noregi, Finnlandi, Bretlandi, Þýskalandi og Póllandi. Cecilia situr í stjórn Aros Kapital AB, sem er sænsk fjármálastofnun, og á þar sæti í endurskoðunar-, áhættu- og lagahlítingarnefnd stjórnar.