DecideAct hefur ráðið Sigvalda Egil Lárusson sem fjármálastjóra félagsins á Íslandi. Ásamt fjármálastjórn mun Sigvaldi sinna sölu og ráðgjöf til nýrra og núverandi viðskiptavina félagsins á Íslandi og erlendis.
Sigvaldi Egill kemur til DecideAct frá Hafrannsóknastofnun þar sem hann starfaði sem fjármála- og rekstrarstjóri. Áður starfaði hann sem fjármálastjóri hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og fyrir það sem viðskiptastjóri í Landsbankanum. Sigvaldi er með meistaragráðu í reikningsskilum og endurskoðun frá Háskóla Íslands.
DecideAct sérhæfir sig í hugbúnaði og lausnum sem styrkja framkvæmd stefnu og styður almennt við stefnumiðaða stjórnarhætti fyrirtækja og stofnana.
Bjarni Snæbjörn Jónsson, forstjóri DecideAct á Íslandi:
„Það er mikill fengur að fá Sigvalda í lið með okkur. Auk þess að styrkja innviði og fjármálastjórn DecideAct bæði á Íslandi og alþjóðlega, kemur Sigvaldi inn í hópinn með þekkingu og reynslu sem snýr að hinum mælanlega hluta stefnuframvindunnar. Við sjáum því fram á að geta aðstoðað viðskiptavini okkar enn frekar við að styrkja stefnuframvindu bæði með tilliti til mikilvægra stefnuverkefna og mælanlegra markmiða sem þau tengjast.“
Sigvaldi Egill Lárusson:
„DecideAct býður virkilega spennandi og nýja lausn sem vantað hefur á markaðinn hingað til. Með hugbúnaðarlausn DecideAct er fyrirtækjum og stofnunum gert auðveldara að innleiða stefnur og fylgja þeim eftir með markvissari og gagnsærri hætti en áður.
Framtíðar vinnuumhverfið er í mínum huga markmiða- og gagnadrifið þar sem vinnutími og staðsetning skipta minna máli en áður. Markviss vinna í átt að sameiginlegu markmiði fyrirtækja þar sem gögn eru notuð til ákvarðanatöku og virkrar stýringar í rekstri er framtíðin og þar skiptir öllu máli að nýta hugbúnað og þjónustu eins og DecideAct býður upp á.
Ég hlakka mikið til að leggja mitt af mörkum í áframhaldandi uppbyggingu á DecideAct og aðstoða viðskiptavini okkar við að ná sínum markmiðum.“