Vésteinn Sigmundsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Reir Verk ehf. Vésteinn tekur við starfinu af Garðari Atla Jóhannssyni sem hefur sinnt því frá árinu 2022.

Vésteinn hefur starfað hjá Reir Verk ehf. síðastliðin 4 ár sem verkefnastjóri. Hann er byggingarverkfræðingur að mennt og starfaði áður hjá Verkís verkfræðistofu áður en hann hóf störf hjá Reir Verk ehf.

„Við erum afar ánægð með að fá Véstein í stöðu framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Reir Verk ehf. Hann hefur sýnt mikla hæfni og þekkingu í gegnum störf sín hjá fyrirtækinu og hefur verið lykilaðili í að byggja upp og styrkja utanumhald byggingaverkefna hjá Reir Verk ehf.,“ segir Rannveig Eir Einarsdóttir, forstjóri Reir Verk ehf.

Reir Verk ehf. hefur nú í nóvember skilað af sér tveimur stórum verkefnum til verkkaupa eða samtals 162 íbúðum ásamt þjónusturýmum og bílakjöllurum.

Um er að ræða annars vegar íbúðakjarna á gamla Steindórsreitnum, með þremur byggingum og 84 íbúðum af mismunandi stærðum ásamt þjónusturými á jarðhæð. Bílakjallari er undir húsinu.

Hins vegar er um að ræða 68 íbúða hús á Stefnisvogi 28-36 ásamt bílakjallara. Skel fjárfestingarfélag er kaupandi af 50 íbúðum úr Stefnisvogi 28-36 en allar íbúðir eru seldar og hafa verið afhentar nýjum eigendum.

Frá afhendingu íbúða að Stefnisvogi 28-36 til Skeljar. Haukur Arnórsson, verkstjóri hjá Reir Verk, Vésteinn Sigmundsson, nýr framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Reir Verk, og Magnús Ingi Einarsson, fjármálastjóri Skeljar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Reir Verk ehf. er nú að byggja í Þorraholti 49 íbúða hús ásamt bílakjallara sem fer í sölu snemma á næsta ári. Auk þess er félagið að byggja um 200 íbúðir til viðbótar við Stefnisvog, beint á móti smábátahöfninni í Reykjavík og steinsnar frá Elliðarárdalnum.

„Þessu til viðbótar erum við með nokkra spennandi þróunarreiti í vinnslu bæði í Reykjavík og Hafnarfirði sem fara vonandi af stað á næsta ári.”

Reir verk ehf. skilaði nýlega af sér íbúðakjarna á gamla Steindórsreitnum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)