Hjördís Auðunsdóttir tók nýverið við sem framkvæmdastjóri Skatts & bókhalds og tekur hún við af Árna Þór Hlynssyni sem hefur leitt fyrirtækið frá árinu 2003 sem mun nú einbeita sér á ráðgjöf til viðskiptavina. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.
Áður starfaði Hjördís sem viðskiptastjóri hjá 1xINTERNET, stjórnarmeðlimur hjá Spænsk – íslenska viðskiptaráðinu, umbótastjóri hjá Vodafone, útgáfustjóri hjá Tempo en hún hefur yfir 23 ára reynslu í tæknigeiranum.
Hjördís hefur lokið B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og kemur hún inn í hlutverkið með víðtæka þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu ásamt skýrri sýn á áframhaldandi vöxt og þróun fyrirtækisins að sögn Árna ÞórS Hlynssonar, fráfarandi framkvæmdastjóra.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða öflugt og traust fyrirtæki sem hefur veitt viðskiptavinum sínum persónulega og faglega þjónustu í fjármálum og bókhaldi í fjölda ára,“ segir Hjördís. „Framundan eru spennandi tímar og ég hlakka til að vinna með frábæru teymi að áframhaldandi vexti og þróun þjónustunnar okkar – með hag viðskiptavina að leiðarljósi.“
Ráðning Hjördísar markar að því er segir í fréttatilkynningu tímamót í rekstri Skatts & bókhalds en félagið ætli sér stóra hluti á næstu misserum með áframhaldandi metnaði fyrir framúrskarandi þjónustu og nýsköpun í fjármálageiranum.
Um Skatt & bókhald
Skattur & bókhald var stofnað árið 1990 og fagnar því 35 ára afmæli á árinu. Í dag starfa um 27 manns hjá félaginu og stefnt er á enn frekari stækkun á næstu misserum. Eigendur félagsins eru Árni Þór Hlynsson og Styrmir Már Ólafsson. Félagið er með höfuðstöðvarnar í Reykjavík og útibú í Borgarnesi.
Skattur & bókhald er bókhaldsstofa sem sérhæfir sig í alhliða fjármálaráðgjöf, uppgjöri og skattskilum fyrir einstaklinga og fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Í fréttatilkynningu segir að lögð sé áhersla á persónulega og faglega þjónustu og fyrirtækið hafi áunnið sér traust viðskiptavina sinna í gegnum árin.