Adriana K. Pétursdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Rio Tinto á Íslandi hf. sem rekur álverið ISAL í Straumsvík frá 1. maí 2024. Frá árinu 2016 hefur hún verið leiðtogi í starfsmannaþjónustu fyrirtækisins og staðgengill framkvæmdastjóra.

Hún vann sem sérfræðingur á mannauðsdeild Samskipa frá 2012-2015 og var þar áður teymisstjóri í miðlægri launadeild hjá Reykjavíkurborg á árunum 2007 – 2012. Adriana er með MIB gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst.

Frá árinu 2023 hefur Adriana einnig verið formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi.

Adriana hefur dýrmæta reynslu í mannauðsmálum og þekkir Rio Tinto á Íslandi vel. Samkvæmt tilkynningu hefur hún tekið virkan þátt í vegferð vinnustaðarins síðustu árin og leitt ýmis umbótaverkefni tengd starfsmannamálum. Adriana tekur við starfinu af Jakobínu Jónsdóttur sem hefur sinnt því frá árinu 2007.