André Rocha hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri þróunarsviðs Emblu Medical, móðurfélags Össurar. Greint er frá þessu í tilkynningu.
André kemur til félagsins frá McKinsey & Company þar sem hann hefur verið meðeigandi frá árinu 2012 á starfsstöðvum þess í Þýskalandi, Japan, og nú síðast í Madríd á Spáni. Hann hefur gegnt stjórnendastöðum á sviði rannsóknar- og þróunar og leiddi m.a. þverfaglegt teymi hjá Nokia (áður Nokia Siemens Networks), á árunum 2004-2010.
André er með MBA gráðu frá European School of Management and Technology (ESMT) í Berlín, M.Sc. gráðu í hagfræði og B.Sc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskólanum í Portó, Portúgal.
„André Rocha er öflugur leiðtogi með alþjóðlega reynslu og þekkingu sem mun nýtast félaginu vel. Ástríða hans fyrir nýsköpun mun ýta enn frekar undir tæknilega forystu okkar á á sviði stoð- og stuðningstækja og tryggja áframhaldandi vöxt og velgengni,” segir Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu Medical.
André kemur til með að vera búsettur á Íslandi og mun leiða rannsóknar- og þróunarteymi félagsins hér á landi sem og erlendis. Hann tekur til starfa 1. apríl 2025.
„Embla Medical er gríðarlega spennandi alþjóðlegt heilbriðigstæknifyrirtæki sem er í stöðugum vexti. Ég hlakka til að leiða öflugt nýsköpunar- og þróunarstarf félagsins, ekki síst á sviði stoðtækja undir merkjum Össurar sem er hjartað í félaginu,“ segir André Rocha.