Aðalsteinn Jón Bergdal er orðinn nýjasti meðeigandi Trausta fasteignasölu en hann hefur unnið hjá félaginu frá því í júní 2020. Hann gengur þá til liðs við Kristján Baldursson, Guðbjörgu Gerði Sveinbjörnsdóttur og Sólveigu Regínu Biard.

Hann er sagður vera sprenglærður óperusvöngvari og hefur stundað nám bæði á Íslandi, í Skotlandi og á Ítalíu. Aðalsteinn lauk þá stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1998.

Kristján Baldursson, einn af eigendum Trausta, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann og Aðalsteinn hafi fyrst kynnst í MH og að Aðalsteinn hafi sinnt ýmsum verkefnum á lífstíðinni.

„Áður en hann fór í fasteignasölu var hann þekktur fyrir að vera aðstoðarverslunarstjóri í Herragarðinum til margra ára. Hann hefur nú klætt bara held ég alla flottustu karlmenn landsins og var einn af aðalmönnunum þar.“

Kristján segir að Aðalsteinn hafi hringt í sig fyrir Covid og sagst vilja fara að gera eitthvað annað en hann var þá búinn að selja öllum viðskiptavinum föt tíu sinnum. „Aðalsteinn varð svo bara strax með þeim betri á landinu í fasteignasölu.“